Hiti hjá börnum er algengur og ekki alvarlegur í flestum tilfellum. Mikilvægt er að hafa í huga að hiti er ekki sjúkdómur heldur einkenni um undirliggjandi sjúkdóm og eitt af varnarviðbrögðum líkamans. Eðlilegur líkamshiti er í kringum 37°C.
Þegar barn yngra en 3 mánaða fær hita er ráðlagt að hafa samband við heilsugæsluna eða við vakt í síma 1700 sem síðan gefur samband við vakthafandi heilbrigðisstarfsfólk á hverju svæði fyrir sig ef þörf er á frekara mati og meðferð. Hiti er í sjálfu sér ekki hættulegur en getur valdið barninu óþægindum, s.s. þurrk og vanlíðan.
Hitakrampar koma fyrir hjá um 4% barna, einkum hjá börnum yngra en 3 ára. Hitakrampar standa oftast stutt yfir og valda ekki heilaskaða eða öðrum skemmdum. Þeir koma gjarnan í byrjun veikinda og því oft erfitt að koma við fyrirbyggjandi meðferð með hitalækkandi lyfjum.
Hvað er hægt að gera?
- Hægt er að gefa hitalækkandi lyf, dæmi: parasetamol 10–15 mg/kg/skammt á 4–6 klst fresti eða ibuprofen 10mg/kg/skammt á 6 klst fresti, mest 3svar á dag. Notkun ibuprofens hjá börnum yngra en 6 mánaða eða undir 8 kg er ekki ráðlögð.
- Hafa barnið léttklætt og svalt í herberginu
- Gefa barninu ríkulega að drekka
- Leyfa barninu að hvílast eins og þurfa þykir
Ytri kæling með vatni eða blautum klútum er sjaldan ráðlögð nema að hitinn haldist yfir 41°C þrátt fyrir hitalækkandi lyf. Ekki skal nota ytri kælingu nema að hitalækkandi lyf hafi verið gefin fyrst. Hitastig vatnsins á að vera á bilinu 25–30°C.
Hvenær þarf að leita á heilsugæslu eða vakt?
Hiti einn og sér er sjaldnast næg ástæða til að leita á heilsugæslu nema ef barnið er yngra en 3 mánaða eða ef barn er óeðlilega slappt.
Eftirtalin einkenni geta bent til alvarlegrar undirliggjandi sýkingar:
- Barnið er :
- óeðlilega slappt, ergilegt, erfitt að verkjastilla það eða ruglað
- er með öndunarerfiðleika, útbrot samfara hitanum eða óþægindi við þvaglát
- er með hita sem staðið hefur lengur en þrjá daga
Hér var stiklað á stórum en brýnum atriðum sem gott er að hafa í huga þegar barn fær hita, ekki er um tæmandi umfjöllun að ræða.
Að lokum er vert að minna á að ávallt hægt er að hringja í 1700 til að fá ráðgjöf. Þar svara hjúkrunarfræðingar og veita faglega ráðgjöf og vegvísun í heilbrigðiskerfinu fyrir allt landið, allan sólahringinn. Metin er þörf á frekari þjónustu og hversu brátt hana skal veita.
F. h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Auðbjörg B. Bjarnadóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslustöðvarinnar á Kirkjubæjarlaustri.
Heimildir: Landspitali, Embætti landlæknis, Læknavaktin.