3.9 C
Selfoss

Vilja friðlýsa stærra svæði í Þjórsárdal

Vinsælast

Síðastliðið fimmtudagskvöld var haldinn opinn fundur um friðlýsingarmál í félagsheimilinu í Árnesi. Skeiða- og Gnúpverjahreppur ásamt Umhverfisstofnun stóðu fyrir fundinum. Tilefnið var fyrst og fremst áform friðlýsingar Gjárinnar í Þjórsárdal. Samþykkt hefur verið af sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að fara út í friðlýsingarferli á því svæði. Eins og margir þekkja er Gjáin með fegurri náttúruperlum landsins. Hún hefur því miður látið nokkuð á sjá á undanförnum árum vegna mikils ágangs ferðamanna. Horft er til þess að friðlýsing sé æskilegt úrræði til að vernda svæðið.

Frummælandi var Hildur Vésteinsdóttir teymisstjóri friðlýsingarmála hjá Umhverfisstofnun. Hildur flutti greinargott erindi um hvaða þýðingu friðlýsing hefur, hverjir kostir hennar séu og hvort gallar séu einhverjir. Auk þess útskýrði hún ferli og flokka friðlýsinga.

Fram til þessa hefur fyrst og fremst verið horft til þess að friðlýsa Gjána eingöngu. Fundurinn var vel sóttur og urðu talsverðar umræður meðal fundargesta um viðfangsefnið. Viðhorf og sjónarmið þeirra voru almennt á þann veg að leggja stærra svæði í Þjórsárdalnum undir friðlýsingu. Hugur margar stendur til þess Fossárdalur og Háifoss verði settur inn fyrir friðlýsingarramma. Jafnvel mun stærra svæði þar sem til greina kæmi að hafa Hjálparfoss með. Ekki er nákvæmlega vitað hversu mikill fjöldi ferðamanna kemur í Þjórsárdal ár hvert. Ljóst er að hann er vaxandi og eru margir staðir dalsins viðkvæmir. Fátt bendir til annars en fjöldinn mun vaxa enn á næstu árum, ekki síst í ljósi áforma um uppbyggingu á ferðaþjónustu. Það kallar á að verja þurfi landið betur en verið hefur. Meðal þeirra kosta sem væntingar eru um að muni fylgja friðlýsingu er staða starfsmanns í landvörslu og er það líkast til raunhæfara eftir því sem friðlýst svæði verður stærra.

Kristófer A. Tómasson, sveitarstjóri.

Nýjar fréttir