Nýr miðbær mun hafa mikil áhrif á ásýnd og ímynd Selfoss og skapa gríðarleg tækifæri fyrir íbúa Árborgar og nálægra svæða.
„Við leggjum mikla áherslu á markaðs- og kynningarstarf fyrir nýja miðbæinn á Selfossi. Þetta starf verður unnið samhliða framkvæmdum á næstu 18 mánuðum og undirbúningur hófst fyrir allnokkru síðan,“ segir Leó Árnason hjá Sigtúni þróunarfélagi. „Við höfum ráðið alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið Kunde & Co til að leiða þessa vinnu. Framundan á næstu vikum er stefnumótunarvinna þar sem að borðinu verða kallaðir allir þeir hagsmunaaðilar sem að miðbæjarverkefninu koma, þ.m.t. fulltrúar atvinnulífs á svæðinu, fulltrúar leigutaka, aðilar í ferðaþjónustu og síðast en ekki síst íbúar. Þessi vinna mun fara fram með ýmsum hætti, s.s. gagnasöfnun og úrvinnslu, vinnustofum og viðtölum við íbúa og gesti.“
Leó segir að kallað verði eftir íbúum sem hafa áhuga á að leggja sitt af mörkum í þessa vinnu. Í því felst m.a. að fara í viðtal við ráðgjafa Kunde þar sem umræðuefnið er Selfoss og hvernig hægt sé að gera góðan bæ enn betri. „Gera má ráð fyrir að svona viðtal taki hátt í klukkustund, og munu þau fara fram dagana 13.–14. nóvember. Viðtalið krefst ekki mikils undirbúnings.“
Vinnustofa verður mánudaginn 12. nóvember. Það verður heill dagur með 15–20 manna hópi sem mun leggja línur um hvernig miðbærinn og Selfoss muni þróast á næstu árum. Hvar við viljum vera eftir 5 ár eða 10 ár og hvernig hægt er að gera Selfoss eftirsóknarverðan bæ að búa í eða heimsækja – hvernig hægt er að gera miðbæinn eftirsóknarverðan. Í hópnum verða fulltrúar Sigtúns þróunarfélags, fulltrúar leigutaka, fulltrúar atvinnurekenda á Selfossi, markaðsfólk, aðilar í ferðaþjónustu, fulltrúar annarra sveitarfélaga í Árnessýslu og íbúar í Árborg.
Leó segir að allir sem geta lagt málinu lið séu velkomnir hvort sem þeir voru hlynntir eða andvígir í íbúakosningunni í ágúst sl.
Að sögn Eggerts Vals Guðmundssonar, formanns bæjarráðs Árborgar, er stutt í að byggingarleyfi verði samþykkt af bæjaryfirvöldum og framkvæmdir geti hafist.