3.9 C
Selfoss

Alþjóðlegt fyrirtæki ráðið til að sjá um markaðs- og kynningarstarf fyrir nýja miðbæinn

Vinsælast

Nýr miðbær mun hafa mikil áhrif á ásýnd og ímynd Sel­foss og skapa gríðarleg tækifæri fyrir íbúa Árborgar og nálægra svæða.

„Við leggjum mikla áherslu á markaðs- og kynningarstarf fyrir nýja miðbæinn á Selfossi. Þetta starf verður unnið samhliða fram­kvæmdum á næstu 18 mán­uðum og undirbúningur hófst fyrir all­nokkru síðan,“ segir Leó Árnason hjá Sigtúni þróun­ar­félagi. „Við höfum ráðið alþjóð­lega ráðgjaf­ar­fyrirtækið Kunde & Co til að leiða þessa vinnu. Framundan á næstu vikum er stefnumótunar­vinna þar sem að borðinu verða kall­aðir allir þeir hagsmunaaðilar sem að mið­bæj­ar­verkefninu koma, þ.m.t. fulltrúar atvinnulífs á svæð­inu, fulltrúar leigutaka, aðilar í ferðaþjónustu og síðast en ekki síst íbúar. Þessi vinna mun fara fram með ýmsum hætti, s.s. gagna­söfnun og úrvinnslu, vinnu­stofum og viðtölum við íbúa og gesti.“
Leó segir að kallað verði eftir íbúum sem hafa áhuga á að leggja sitt af mörkum í þessa vinnu. Í því felst m.a. að fara í viðtal við ráðgjafa Kunde þar sem umræðuefnið er Selfoss og hvernig hægt sé að gera góðan bæ enn betri. „Gera má ráð fyrir að svona viðtal taki hátt í klukku­stund, og munu þau fara fram dagana 13.–14. nóvember. Við­tal­ið krefst ekki mikils undir­bún­ings.“

Vinnustofa verður mánudag­inn 12. nóvember. Það verður heill dagur með 15–20 manna hópi sem mun leggja línur um hvernig miðbærinn og Selfoss muni þróast á næstu árum. Hvar við viljum vera eftir 5 ár eða 10 ár og hvernig hægt er að gera Sel­foss eftirsóknarverðan bæ að búa í eða heimsækja – hvernig hægt er að gera miðbæinn eftir­sóknar­verðan. Í hópnum verða fulltrúar Sigtúns þróunarfélags, fulltrúar leigutaka, fulltrúar atvinnu­rek­enda á Sel­fossi, mark­aðsfólk, aðil­ar í ferða­þjónustu, fulltrúar annarra sveit­ar­félaga í Árnes­sýslu og íbúar í Árborg.

Leó segir að allir sem geta lagt málinu lið séu velkomnir hvort sem þeir voru hlynntir eða and­vígir í íbúakosningunni í ágúst sl.

Að sögn Eggerts Vals Guð­mundssonar, formanns bæjarráðs Árborgar, er stutt í að byggingar­leyfi verði samþykkt af bæjar­yfirvöldum og fram­kvæmdir geti hafist.

Nýjar fréttir