Á vef Veðurstofunnar kemur fram að núverandi staða sé sú að virkni Öræfajökuls séu dæmigerð fyrir eldfjöll sem eru að búa sig undir eldgos. Tekin var saman grein um núverandi stöðu að loknum samráðsfundum með Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans og Almannavörnum, auk íbúafunda í Öræfasveit.
Núverandi staða Öræfajökuls
- Fjallið hefur þanist út frá áramótum 2016-17. Þenslunni fylgir aukin jarðskjálftavirkni og aflögun, sem kemur fram í úrvinnslu gervitunglagagna og GPS mælinga. Orsök þenslunnar er talin vera innskot nýrrar kviku í rótum eldstöðvarinnar sem byggir upp þrýsting inni í fjallinu.
- Engin merki eru um að hraði þenslunnar fari minnkandi, þvert á móti er vísbendingar um að hraði þenslunnar, sem líklega endurspeglar hraða innflæðis kviku, hafi aukist lítillega frá því í sumar.
- Jarðskjálftavirknin í ár hefur aldrei verið meiri síðan mælingar hófust og hefur heldur aukist frá því í sumar. Bæði mælast nú fleiri skjálftar en einnig eru þeir stærri og þar með orkumeiri. M.ö.o. þá mælast nú í haust fleiri skjálftar af stærð M1,5 til M3 en áður. Jarðskjálftarnir raða sér helst á öskjurimann og benda því til hreyfinga á hringsprungum á jaðri öskjunnar.
- Svo virðist sem dregið hafi verulega úr afli jarðhitasvæðisins sem myndaði um 20 m djúpan sigketil í miðri Öræfajökulsöskjunni í nóvember í fyrra. Gervitunglamynd af yfirborði jökulsins frá 4. október sýnir óverulegar breytingar, aðrar en þær sem tengja má eðlilegu árferði. Mælingar í Kvíá, bæði leiðnimælingar og efnagreiningar á sýnum, benda til að í ár hafi dregið smám saman úr magni jarðhitavatns sem blandast jökulvatninu. Mælingar á dýpt ketilsins sýna að hann náði mestri dýpt í desember í fyrra og hefur síðan grynnkað (um a.m.k. 10 metra). Íssjármæling sem gerð var í júní 2018 sýnir enga vatnssöfnun undir katlinum. Það er því afar ólíklegt að ísketillinn safni vatni. Ný mæling á dýpt ketilsins verður gerð í nóvember.
- Viðnámsmælingar frá því í vor sýna jarðhitaummyndun á litlu dýpi inni í öskju Öræfajökuls. Mælingarnar benda til tilvistar háhitakerfis, svipaðs og sést í mörgum megineldstöðvum á Íslandi.
- Efnagreining á sýnum úr Kotá benda til að hún sé blönduð jarðhitavatni líkt og verið hefur. Svínafellsá sýnir engin jarðhitamerki og Virkisá sýnir svipað ástand og verið hefur.
Samtúlkun ofantalinna mælinga á stöðunni í dag bendir til að kvikusöfnun sé á um 3 til 8 km dýpi. Hún byggir upp þrýsting inni í fjallinu og veldur þenslu og jarðskjálftavirkni á hringlaga öskjusprungum. Jarðhitaafl undir sigkatlinum hefur minnkað verulega. Hugsanlega varð hin snögga aukning í jarðhita í nóvember og desember 2017 vegna áhrifa kvikunnar á rætur jarðhitakerfisins en síðan hafi kerfið náð nýju jafnvægi við svipað hitaútstreymi og var áður. Jafnframt má vera að samfara auknu aðgengi kalds grunnvatns að efstu lögum fjallsins hafi efsti hluti jarðhitakerfisins kólnað.
Möguleg þróun
- Virkni Öræfajökuls nú er dæmigerð fyrir eldfjöll sem búa sig undir eldgos. Virknin getur hætt áður en til goss kemur en um það er ekkert hægt að segja á þessu stigi.
- Ein möguleg afleiðing núverandi þróunar er að virknin vaxi enn og endi með eldgosi en ekki er hægt að segja hvenær það yrði.
- Ekki er útilokað að fleiri kvikuinnskot myndist inní fjallinu. Þetta gæti haft áhrif á jarðhitavirkni og aukið hættu á jökulhlaupum.
Hér fyrir neðan má sjá frekari útskýringar á vöktun Öræfajökuls og einnig gröf og nánari útskýringar á virkninni í eldstöðinni.
Fréttin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.