-1.6 C
Selfoss

Fílar, froskar og sýningarlok í Listasafni Árnesinga

Vinsælast

Áfram er boðið upp á fjölbreytta dagskrá í Listasafni Árnesinga. Sunnudaginn 28. október er komið að síðasta sýningardegi keramíksýnigarinnar Frá mótun til muna. Af því tilefni munu leirlistamennirnir Steinunn Aldís Helgadóttir og Þórdís Sigfúsdóttir segja frá leirlistaverkunum og heimildarmyndinni sem gerð var um listasmiðjuna sem efnt var til í Ölfusi haustið 2017 og hefst leiðsögnin kl. 15:00. Á sýningunni eru margvíslegir munir sem allir eru brendir með lifandi eldi og ferlið því að nokkru leyti ferð út í óvissuna og forvitnilegt að heyra þá sem þekkja það segja frá.

Putul og Bani við Varmahlíð.

Fastur liður á dagskrá hjá Listasafni Árnesinga er listasmiðja fyrir börn og fjölskyldur þeirra síðasta sunnudag hvers mánaðar kl. 14:00–16:00. Nú á sunnudaginn verður góður gestur í safninu, indverski myndlistarmaðurinn Baniprosonno og Putul kona hans sem munu leiðbeina börnum og fullorðnum að vinna skapandi pappírsklipp, fíla og froska, eins og Baniprosonno einum er lagið. Þau hjónin eru mörgum Sunnlendingum að góðu kunn og Baniprosonno hefur nokkrum sinnum verið boðið upp á margvíslegar listasmiðjur með honum í safninu. Þau dvelja nú á Íslandi í 9. sinn og þó hann sé orðinn 86 ára gamall er hann enn með brennandi áhuga á því að skapa myndlist og miðla til barna og fullorðinna leik- og sköpunargleði.

Nánari upplýsingar um sýningarnar og dagskrá safnsins má sjá á heimasíðu þess og samfélagsmiðlum. Sýningin um Halldór Einarsson í ljósi samtímans hefur verið framlengd til 16. desember. Safnið er opið kl. 12-18 fimmtudaga – sunnudaga. Aðgangur að safninu sem og þátttaka í listasmiðjum og leiðsögn er ókeypis og allir velkomnir.

Nýjar fréttir