2.3 C
Selfoss
Home Fréttir Skammdegisbæjarhátíðin Þollóween í Þorlákshöfn

Skammdegisbæjarhátíðin Þollóween í Þorlákshöfn

0
Skammdegisbæjarhátíðin Þollóween í Þorlákshöfn
Þollóween.

íbúar í Ölfusi láta skammdegið ekki draga úr sér þrótt. Fyrir dyrum stendur að halda bæjarhátíðina Þollóween sem er skammdegisbæjarhátíð fyrir alla fjölskylduna. Hátíðin verður í Þorlákshöfn dagana 29. október til 4. nóv. Blaðamaður dfs.is hafði samband við forsprakka Þollóween og spurði út í tilurð hátíðarinnar. „Upphafið af þessari hátíð var á íbúasíðu Þorlákshafnarbúa og Ölfusinga á Facebook, en þar var umræða í fyrra um hvað það væri nú gaman að halda bæjarhátíð í kringum Halloween. Við vorum svo nokkrar röskar konur sem tókum okkur saman og gerðum þennan draum að veruleika, að sjálfsögðu með dyggri aðstoð bæjarbúa, sveitarfélagsins og fyrirtækja á svæðinu og viljum við sérstaklega koma þakkir á framfæri til þeirra.“

Hvað er það helsta sem er á dagskránni á Þollóween? „Það verður margt og mikið á boðstólunum fyrir alla aldurshópa til að mynda Selfileg Skrautsmiðja þar sem fjölskyldur geta komið saman og föndrað skelfilegar skreytingar, Aftur-ganga þar sem okkar helsti draugabani og leiðsögumaður Jói Davíðs mun leiða forvitna og örlítið skelkaða gesti um helstu draugasvæði þorpsins. Einnig verða Reimleikar, skemmtun fyrir óhugnaleg börn, og að sjálfsögðu Köngulær og Kampavín, skemmtun fyrir óhugnalega fullorðna. Hátíðin lýkur svo í taugaslakandi jóga í Jógahorninu hjá Sóleyju á sunnudeginum.“

Hvernig er stemmningin fyrir hátíðinni meðal bæjarbúa? „Þorlákshafnarbúar hafa tekið þessari hátíð mjög vel, og við höfum upplifað mikinn stuðning. Þótt hátíðin sé undir formerkjum hrekkjavöku þá snýst hún aðallega um að koma saman í skammdeginu og njóta sögu, menningu og félagsskaps fjölskyldu og vina.“