-6.7 C
Selfoss

Rjúpnaveiðar hefjast í dag

Vinsælast

Rjúpnaveiðar hefjast í dag föstudag, 26. október og verður eins og undanfarin ár bundin við helgar, föstudag, laugardag og sunnudag. Mikill áhugi er fyrir veiðunum eins og endranær og hefur hlutfall kvenna í hópi veiðimanna vaxið nokkuð á seinni árum.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur metið að stofninn þoli veiðar á 67.000 rjúpum sem er aukning frá fyrra ári. Þrátt fyrir þessa aukningu hvetur Umhverfisstofnun veiðimenn til að gæta hófs á veiðum eins og þeir hafa gert á undanförnum árum. Þá er sölubann á rjúpum og rjúpnaafurðum enn í gildi.

Fyrirkomulag rjúpnaveiða 2018 er eftirfarandi:

1. Heildarveiði árið 2018 miðast við 67.000 rjúpur sbr. mat Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli stofnsins.

2. Sölubann er á rjúpum. Óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja rjúpur og rjúpnaafurðir. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu gegn endurgjaldi. Umhverfisstofnun er falið að fylgja því eftir.

3. Hófsemi skal vera í fyrirrúmi. Veiðimenn eru eindregið hvattir til að sýna hófsemi og eru sérstaklega beðnir um að gera hvað þeir geta til að særa ekki fugl umfram það sem þeir veiða m.a. með því að ljúka veiðum áður en rökkvar. Umhverfisstofnun verður falið að hvetja til hófsemi í veiðum.

4. Veiðiverndarsvæði verður áfram á SV-landi líkt og undanfarin ár. Sjá kort.

5. Veiðidagar eru 15 og skiptast á fimm helgar, frá föstudegi til sunnudags og hefst veiði síðustu helgina í október sem hér segir:

  • Föstudaginn 26. október til sunnudags 28. október, þrír dagar.
  • Föstudaginn 2. nóvember til sunnudags 4. nóvember, þrír dagar.
  • Föstudaginn 9. nóvember til sunnudags 11. nóvember, þrír dagar.
  • Föstudaginn 16. nóvember til sunnudags 18. nóvember, þrír dagar.
  • Föstudaginn 23. nóvember til sunnudags 25. nóvember, þrír dagar.

Nýjar fréttir