-11.6 C
Selfoss

Starfsferillinn hefur mest verið í samfélagsmálum og mýkri málum

Vinsælast

Elliði Vignisson tók formlega við starfi bæjarstjóra í Sveitarfélaginu Ölfusi 9. ágúst sl. Hann býr í Ölfusinu ásamt fjölskyldu sinni.

Elliði er fæddur og uppalinn í Vest­manna­eyjum og hefur búið þar lengst af. „Ég var á fjórða ári þegar gaus. Í kjölfarið á gosinu kom mín fyrsta reynsla af því að búa annars staðar en í Vestmannaeyjum en það var um eitt ár. Ég kláraði grunnskólann í Vestmannaeyjum og fór þaðan í Fram­haldsskólann. Síðan tók ég BA-próf í sál­fræði í Háskóla Íslands í beinu framhaldi af stúdentsprófi og tók síðan nám til kennslu­réttinda. Að því loknu flutti ég til Dan­merk­ur. Þar lauk ég mastersgráðu í sál­fræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Að því loknu flutti ég aftur til Vestmannaeyja og kenndi í Framhaldsskólanum í ein tíu ár,“ segir Elliði.

Í bæjarmálum í Eyjum í 16 ár
Elliði varð bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum árið 2002 og svo bæjarstjóri 2006. Hann er því búinn að vera 16 ár í bæjarmálunum og þar af 12 ár sem bæjarstjóri. Segja má að hann komi því með góða reynslu í bæjarmálin í Ölfusinu.

Leigjum hús í Ölfusinu
„Ég leigi hús hérna upp í Ölfusinu. Konan mín, Bertha Johansen, og dóttir, Bjartey Bríet sem er 17 ára og er í Framhalds­skólanum í Vestmannaeyjum, komu líka með mér. Svo á ég son, Nökkva Dan, sem býr í Noregi. Hann er að læra stærðfræði og spilar handbolta með norska úrvals­deild­­ar­­lið­inu Arendal. Berta rekur enn fyrirtæki sitt í Vestmannaeyjum þannig að þær mæðg­ur eru svolítið á tveimur stöðum í augnablikinu. Það tekur okkur einhvern smá tíma að ná fullum takti,“ segir Elliði.

Áhugamál fjölskyldunnar
Elliði hefur verið viðloðandi íþróttir frá blautu barnsbeini og hefur mikinn áhuga á þeim. „Ég spilaði fyrst handbolta og þjálf­aði svo. Handbolti er áhugamál fjölskyld­unnar númer eitt.“
Elliði segir að starfsferillinn sinn hafi mest verið í samfélagsmálum og mýkri mál­um, kennslu og vinnu með fötluðum. Hann hefur m.a. verið stuðningsfulltrúi í skóla og fleira þess háttar.

Brennandi áhugi á Einari Ben
Elliði var spurður hvað bæjarstjórar gera þegar þeir eru ekki í vinnunni.
„Ef allt er með eðlilegum formerkjum þá eiga þeir náttúrulega sín frí. Ég nota mínar frístundir líka mjög mikið í vinnuna. Vinnan mín er áhugamál mitt líka. Ef ég hef átt frí þá er það gjarnan þannig að hug­urinn leitar að einhverju sem tengist vinn­unni. Stundum er það laustengt; t.d. hef ég fengið brennandi áhuga á öllu sem tengist Einari Benediktssyni. Enda var hann íbúi hér í Selvogi eða í Herdísarvík sem er í Ölfusinu. Þannig að þetta tengist gjarnan á einhvern hátt því sem maður er að gera í vinnunni. Síðan eru það íþrótt­irnar og útivist á Enduro mótocrosshjóli. Þetta eru svona stóru áhugamálin.“

Nýjar fréttir