-4.8 C
Selfoss

Guðmundur í Árbæ kom, sá og sigraði á degi sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu

Vinsælast

Laugardaginn 20. október sl. var Dagur sauðkindarinnar haldinn hátíðlegur í Rangárvallasýslu, að þessu sinni í Rangárhöllinni á Hellu. Fjöldi fjár var á sýningunni, en efstu lambhrútum, veturgömlum hrútum og lambgimbrum úr dómayfirferð RML er boðið að koma á þessa sýningu og metast innbyrðis um hvert þeirra hafi bestu gerðina.

Nú var sú nýbreytni viðhöfð að kollóttum og hyrndum lömbum var raðað í sitt hvoru lagi. Alls mættu 22 hyrndir hrútar til leiks og 8 kollóttir. Af hyrndum hrútum bar lamb nr. 39 frá Skíðbakka 3 í Landeyjum sigur úr býtum með 89,0 stig. Feikna öflugur hvítur hrútur undan heimahrút sem kallaður er Botni. Þetta lamb var með þykkasta bakvöðva sýningarinnar eða 43 mm og hlaut hann verðlaun fyrir að vera „kótiletta“ sýningarinnar. Eigandi hans og ræktandi er Erlendur Árnason á Skíðbakka. Í öðru sæti var lamb nr. 398 frá Hemlu II í Landeyjum einnig hvítur undan heimahrútnum Auði. Ræktendur hans eru Lovísa Ragnarsdóttir og Vignir Siggeirsson í Hemlu. Hann fékk 88,5 stig og í þriðja sæti varð hvítur hrútur frá Rökkva Hljómi Kristjánssyni á Hólum á Rangárvöllum undan Burkna frá Mýrum 2 (sæðingarhrút) með 88,0 stig.

Kollóttu sigurhrútarnir komu allir frá Árbæ í Holtum ræktaðir af Guðmundi Bæringssyni. Tvílembingar númer 32 og 33 undan heimahrútnum Birki stóðu efstir og í þriðja sæti var lambhrútur númer 51 undan Álfi sem einnig er heimahrútur. Tvílembingarnir fengu 89,0 og 89,5 stig og lamb nr. 51 fékk 88,0 stig.

Gimbrarnar voru ekki síðri en hrútarnir og þær hyrndu röðuðust þannig að aftur stóð Erlendur á Skíðbakka efstur með gimbur númer 49. Í öðru sæti voru Benedikt og Lilja í Djúpadal með gimbur nr. 54 og í þriðja sæti var gimbur frá Ágústi Rúnarssyni í Vestra-Fíflholti nr. 18.

Í kollótta gimbrahópnum var Guðmundur í Árbæ að nýju með þrjár efstu gimbrarnar og voru tvær efstu tvílembingar undan Birki. Greinilegt er að sá hrútur gefur feikna holdþétt lömb. Í þriðja sæti var svo gimbur nr. 24 undan Adam sem Guðmundur keypti fyrir vestan og hefur notað hann ásamt nágranna sínum.

Í hópi veturgamalla hrúta var slegist um efsta sætið. Skiptu hrútarnir um stöðu upp og niður um stund en að lokum var það enn Guðmundur í Árbæ sem átti efsta veturgamla hrútinn og er hann kollóttur nr. 17-007 og heitir Logi. Í öðru sæti var hrútur frá Helga Benediktssyni, Regúlu Rudin og Símoni Helga Helgasyni í Austvaðsholti nr. 17-175 og í þriðja sæti hrútur númer 17-750 frá Ágústi Rúnarssyni í Vestra-Fíflholti.

Hermann Árnason gaf hrútunum stig og var snöggur að því og lýsti þeim síðan lauslega fyrir áhorfendum. Guðlaug Berglind Guðgeirsdóttir ómmældi fyrir hádegi, en dreif sig svo í smalamennsku strax að því loknu. Aldrei laus stund hjá sauðfjárbændum.

Litfegursta gimbrin var valin af áhorfendum og var grámóbotnótt gimbur frá Djúpadal hlutskörpust.

Fjölskyldan á Butru í Fljótshlíð að taka við verðlaunum sem ræktunarbú sýslunar.

Þá voru veitt verðlaun fyrir ræktunarbú ársins og þau Oddný Steina Valsdóttir og Ágúst Jensson í Butru fengu heiðurinn af að taka við þeim verðlaunum og fimm vetra ær með hæsta kynbótamat sýslunnar kom frá Skarði í Landssveit.

Björk í Selssundi kom með rokkinn sinn að venju og spann með börnunum og þá var boðið upp á handverksfólk kæmi með vörur á markaðsborð og voru nokkrir sem nýttu sér það. Skemmtileg stemning myndaðist í kringum borðin.

Sláturfélag Suðurlands gaf kjötsúpu sem gestir gátu yljað sér á milli þess sem þeir skoðuðu fallegt fé í höllinni. Sýningin er jafnframt styrkt af sveitarfélögunum þremur, Ásahreppi, Rangárþingi Eystra og Rangárþingi Ytra og einnig styrktu Aurasel og Rangárhöllin sýninguna sömuleiðis. Þá gáfu nokkrir aðilar gjafir í happdrætti til fjáröflunar fyrir sauðfjárdaginn. Það voru Bifreiðaverkstæðið Rauðalæk, Bókaútgáfan Sæmundur, Fiskás, Fóðurblandan, Hótel Rangá, Hótel Stracta, Kjötvinnslan Villt og Alið, Smáspunaverksmiðjan Uppspuni, SS, Stefán og Þórhalla í Þjóðólfshaga og Steinn og Helga Dagrún í Hjarðarbrekku.

Félag Sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu þakkar öllum styrkveitendum, gefendum happadrættisvinninga og þeirra sem komu að því að dæma, mæla og vinna við dag sauðkindarinnar innilega fyrir þeirra framlag. Án þess væri þetta ekki mögulegt. Við hlökkum til næsta dags að ári.

Nýjar fréttir