3.9 C
Selfoss

Átakanlegar lýsingar á málþingi um forvarnir

Vinsælast

Um 150–160 manns voru saman komin á málþingi sem haldið var í kjölfar sýningar á myndinni Lof mér að falla sem sýnd var fyrir foreldra á Selfossi í gærkvöldi. Myndin er vægast sagt áhrifamikil og varpar ljósi á þær hörmungar sem fíkn og fíkniefni valda ungu fólki. Bent var á að heldur væri dregið úr ljótleikanum en hitt.

Berglind Ósk Guðmundsdóttir, systir Kristínar Gerðar Guðmundsdóttur, sagði sögu systur sinnar sem lést langt fyrir aldur fram, en kvikmyndin Lof mér að falla er meðal annars byggð á dagbókarfærslum sem Kristín hélt. Þá var sýnt viðtal við Kristínu sem þeir Sigursteinn Másson og Jóhannes Kr. Kristjánsson tóku við hana. Átakanlegt var að heyra hana lýsa veruleika sínum og þeirra stúlkna sem dragast inn í hyldýpi neyslunnar. Hennar heitasta ósk var einmitt sú að saga hennar myndi verða til þess að forða ungu fólki að feta þessa slóð.

Næstur tók til máls Jóhannes Kr. Kristjánsson. Jóhannes er kunnur fréttamaður og hefur látið sig þessi málefni varða. Á fundinum talaði hann sem faðir sem hefur misst barnið sitt úr vímuefnaneyslu. Hann lýsti ferli Sissu dóttur sinnar frá því að hún hóf að fikta við vímuefni og þar til hún lést sökum ofneyslu. Þá spilaði hann ýmis myndbrot úr því efni sem hann hefur unnið fyrir Kastljós og Kompás.

Anný Ingimarsdóttir, fulltrúi frá Barnarvernd Árborgar, kynnti starfið sem þar er unnið. Í máli hennar kom fram að þessi mál væru afskaplega erfið og sorgleg. Jafnframt benti hún á að séu foreldrar í vafa megi ávallt hafa samband og fá ráðgjöf og aðstoð. Sé það utan tíma skrifstofunnar sé hægt að hafa samband við 112 sem beinir fyrirspurnum í réttan farveg.

Árni Felix Gíslason, fulltrúi lögreglunnar á Suðurlandi, fræddi fundargesti um það starf sem verið er að vinna innan lögreglunnar. Jafnfram tilkynnti hann að til stæði að setja af stað sérstakt fíkniefnateymi innan lögreglunnar á Suðurlandi til þess að fást við þessi málefni af meiri festu. Fram kom í máli hans að lögreglan vildi allt til þess gera að aðstoða fólk í þessum vanda, bæði aðstandendur og neytendur.

Miklar umræður spunnust að erindum loknum. Meðal annars var bent á nauðsyn þess að vera með öflugt foreldrarölt og mikilvægi þess að láta sig náungann varða.

Nýjar fréttir