2.3 C
Selfoss
Home Fréttir Fær barnið næga mjólk?

Fær barnið næga mjólk?

0
Fær barnið næga mjólk?
Veronika Carstensdóttir Snædal, ljósmóðir HSU.

Eitt helsta áhyggjuefni nýorðinni mæðra, er hvort að barnið fái næga mjólk þegar það sýgur brjóstið. Þessi efi er oftast að ástæðulausu og getur valdið því að farið er að gefa þurrmjólk án þess að þörf sé á því. Það getur haft þær afleiðingar að mæður hætti fyrr með barn á brjósti heldur en þær vilja.

Áhyggjurnar koma oft þegar barnið er á því tímabili að vilja drekka oftar og lengur en áður og er jafnvel órólegt við brjóstið. Þetta er eðlilegt og þýðir ekki að konan hafi ekki næga mjólk. Það eru stundum aðrar ástæður en svengd, sem fær nýbura til að leita að brjóstinu. Það getur til dæmis verið sog- og snertiþörf, óöryggi, oförvun, eða því er of kalt eða of heitt.

Hvernig veistu þá hvort barnið fær nóga mjólk fyrstu vikurnar? Ef barnið drekkur á 2–3 tíma fresti (á ekki við á fyrsta sólahring því þá drekkur það oft örar), sýgur vel, heyrist kyngja, vætir 6–8 bleiur á sólarhring, lítur eðlilega út, sýnir eðlileg viðbrögð og hreyfingar, þá er það líklegast að fá næga mjólk.

Það er mikilvægt að gefa sér þann tíma sem þarf til að brjóstagjöfin nái að fara vel af stað og leyfa barninu að drekka eins oft og lengi og því lystir. Einnig er gott að vita að börn á brjósti geta ekki drukkið of oft eða fengið illt í magann af tíðum gjöfum. Loft í maganum getur valdið óróleika eða magaverkjum eftir brjóstagjöf. Það er hægt að minka það með að láta barnið ropa strax eftir gjafir eða láta barnið hjóla með fótunum. Ef barnið gleypir mikið loft þarf kannski að leiðrétta sog og stellingu. Það er alveg eðlilegt að nýfædd börn fái loft í magann, þar sem þarmarnir eru að venjast mjólkinni.

Ef það eru gjafavandamál er mikilvægt að sækja sér aðstoð hjá  ljósmóður eða brjóstagjafaráðgjafa.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Veronika Carstensdóttir Snædal, ljósmóðir HSU