2.8 C
Selfoss
Home Fréttir Dásamlegt hvað það eru til margir góðir rithöfundar

Dásamlegt hvað það eru til margir góðir rithöfundar

0
Dásamlegt hvað það eru til margir góðir rithöfundar
Guðfinna Ólafsdóttir.

Guðfinna Ólafsdóttir, lestrarhestur Dagskrárinnar, er Ísfirðingur að ætt og uppruna en hefur lengst ævi sinnar búið á Selfossi. Hún er læknaritari og starfaði á HSU í mörg ár en er núna komin á eftirlaun. Hún á tvö börn með eiginmanni sínum Guðmundi Helga Eiríkssyni mjólkurfræðingi og fimm barnabörn. Guðfinna er mikil kvenfélagskona og starfar einnig með Félagi eldri borgara á Selfossi auk þess sem þau hjón leika golf þegar tími gefst til.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Yfirleitt er ég með nokkrar í takinu. Núna er ég að lesa bækur Jóns Kalmanns Stefánssonar í leshring Félags eldri borgara. Í haust varð skáldsagan Fiskarnir hafa enga fætur fyrir valinu og var það m.a. vegna þess að Jón er tilnefndur til „litlu“ Nóbelsverðlaunanna í ár. Ég las þessa bók þegar hún kom út og hún batnar við annan lestur. Svo er það Eitthvað á stærð við alheiminn eftir sama höfund og er framhald af fyrri bókinni. Þetta er fjölskyldusaga sem gerist í Keflavík og á Neskaupstað. Þriðja og síðasta bókin í þessum þríleik er Saga Ástu og á ég hana eftir. Í leshringnum lesum við upphátt hvert fyrir annað og ræðum efnið og þá kemur svo margt í ljós sem maður missti af við fyrsta lestur. Að hlusta á söguna og stúdera hana er heillandi. Svo lesa allir svo fallega. Ég er líka í leshring í bókasafni Árborgar og þar vorum við að lesa Hús tveggja fjölskyldna eftir Lyndu Cohen Loigman. Svo er ég alltaf með eitthvað í gangi á lesbrettinu þar á meðal skáldsöguna Á demantatorgi eftir Merce Rodoreda sem gerist á Spáni. Það góða við bækur er að maður ferðast til fjarlægra landa, kynnist ólíkum heimum og þjóðum og gleymir stund og stað. Að lokum verð ég að nefna Sögu Kvenfélags Selfoss sem kom út í vor á 70 ára afmæli félagsins og er í raun saga Selfoss. Bók sem allir Selfyssingar ættu að eiga.

Hvers konar bækur höfða til þín?
Ég les helst skáldsögur og sæki í að lesa verðlaunahöfunda. Upp á síðkastið hef ég þó kíkt í ævi- og endurminningabækur vegna þess að mig langar að skrifa endurminningar fyrir barnabörnin mín. Kannski hafa þau ekki áhuga á þeim núna en vonandi síðar á ævinni. Ég var í sveit á bæ þar sem ekki var rafmagn og stundum aðeins fært sjóleiðina. Þá hef ég upplifað náttúruhamfarir bæði eldgos og jarðskjálfta sem ég vona auðvitað að þau eigi ekki eftir að kynnast af eigin raun.

Ertu alin upp við bóklestur?
Það var töluvert af bókum á mínu æskuheimili en ég man ekki eftir að það hafi verið lesið fyrir mig. Ég varð snemma læs og las mikið sem barn og unglingur og geri enn. Ég fékk yfirleitt eina bók í jólagjöf en svo höfðum við systurnar aðgang að bókum nágrannana. Mínar bækur voru Glaðheimabækurnar eftir Ragnheiði Jónsdóttur. Núna er ég búinn að uppgötva að Ragnheiður var fædd á Stokkseyri og mér finnst endilega að við í Árborg ættum að gera eitthvað til að halda minningu hennar á lofti. Hún skrifaði dásamlegar bækur um Völu og Dóru og Þóru frá Hvammi. Aðrar bækur sem ég las voru til dæmis Öddubækurnar en elsta systur mín, alltaf kölluð Adda, fékk þær bækur og þær voru lesnar upp til agna. Svo auðvitað Sagan hans Hjalta litla eftir Stefán Jónsson sem maður grét yfir.

En hvernig eru lestrarvenjur þínar?
Núna les ég aðallega uppi í rúmi á kvöldin af lesbretti. Ég les sjaldan á daginn en ef ég hef eitthvað virkilega spennandi í höndunum les ég yfir sjónvarpinu. Á árum áður var ég með eina bók í eldhúsinu, aðra í stofunni og svo nokkrar á náttborðinu.

Áttu þér uppáhaldshöfunda?
Ég á marga uppáhaldshöfunda eins og Auði Övu Ólafsdóttur sem skrifar um konur og flókin sambönd, Vilborgu Davíðsdóttur sem skrifar sögulegar skáldsögur, Jón Kalmann og Doris Lessing. Svo má bæta við Kazuo Ishiguro sem fékk Nóbelsverðlaun 2017 og skrifar þannig að maður verður að halda áfram að lesa. Hér vil ég nefna skáldsögurnar Slepptu mér aldrei og Dreggjar dagsins. Fyrrnefnda sagan hafði veruleg áhrif á mig.

Hefur bók rænt þig svefni?
Alveg örugglega hér á árum áður. Þegar ég las krimma eins og eftir Stieg Larsson hélt hann örugglega fyrir mér vöku. En núna nenni ég ekki lengur að lesa glæpasögur. Stundum héldu ástarsögur fyrir mér vöku og ég man sérstaklega eftir Þó blæði hjartasár eftir Marilyn French. Margir muna örugglega eftir Kvennaklósettinu sem hún skrifaði. Frábær höfundur. Engan þarf að öfunda eftir Barböru Demick er líka ógleymanleg og segir frá flóttafólki frá Norður Kóreu. Maður er ekki samur eftir lestur þeirrar bókar. Svo langar mig að lokum að nefna bók sem heitir Alone in Berlin eftir Hans Fallada. Held að hún hafi ekki verið þýdd á íslensku. Þar segir frá eldri hjónum sem mótmæla nasistum í Berlín. Virtist saklaust í fyrstu og nánast barnalegt það sem þau gerðu en hafði heilmiklar afleiðingar í för með sér. Alveg mögnuð bók sem hefur trúlega rænt mig einhverjum svefni.

En hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Fjölskyldusögur og sögur um sterkar konur og fólk í nútímanum. Ég held ég hafi ekki hugmyndaflug í að skrifa skáldsögu en bestu sögurnar eru auðvitað byggðar á raunverulegu fólki og ég á kannski efni í eina slíka og væri gaman að geta skrifað þá bók. Svo er bara dásamlegt hvað það eru til margir góðir rithöfundar.