-6 C
Selfoss

Truflunum vegna eldinga fer fækkandi

Vinsælast

Í lok september skall á eldingaveður á Suðurlandi með þeim afleiðingum að fyrirvaralausar truflanir urðu í dreifikerfi RARIK á Dísastöðum við Selfoss og í uppsveitum Árnessýslu.

Truflanir að völdum eldinga verða oftast vegna niðursláttar þeirra í loftlínur eða í tengivirki. Núna ollu eldingar bilunum á loftlínum, staurar brotnuðu og útleysingar urðu í aflrofum í aðveitustöðvum við Selfoss og í Reykholti.

Samkvæmt vefmiðlinum visir.is varð sjónarvottur í Hrunamannahreppi skammt frá Flúðum vitni af því þegar eldingu laust niður í rafmagnsstaura með þeim afleiðingum að sex staurar brotnuðu. Lýsti hann fyrirbærinu sem eldhnetti eða stórum bolta. Þórður Arason hjá Veðurstofunni segir að samkvæmt lýsingunni gæti hugsanlega verið um „urðarmána“ að ræða sem er sjaldgjæft fyrirbæri.

Samkvæmt truflanaskráningu RARIK eru fyrirvaralausar truflanir í dreifikerfinu vegna eldinga næstum árviss viðburður, en þær valda þó hlutfallslega miklu færri truflunum en aðrar orsakir. Meðalfjöldi eldingatruflana síðustu 10 árin var þannig 9,3 truflanir árlega eða um 1,6% allra truflana. Sé litið framhjá tilviljanakenndum sveiflum þá hefur truflunum vegna eldinga fækkað samhliða aukinni strengvæðingu dreifikerfisins. Á myndinni hér að neðan má sjá fjölda eldingatruflana ár hvert frá árinu 1992.

Mynd: Rarik.
Mynd: Rarik.

Nýjar fréttir