2.3 C
Selfoss
Home Fréttir Notum bílbelti og réttan öryggisbúnað

Notum bílbelti og réttan öryggisbúnað

0
Notum bílbelti og réttan öryggisbúnað
Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, ljósmóðir og hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar á Klaustri.
Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, ljósmóðir og hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar á Kirkjubæjarklaustri.

Barátta fyrir auknu umferðaröryggi snýst í grófum dráttum um tvo þætti, annars vegar að koma í veg fyrir slys og hins vegar að koma í veg fyrir alvarlega áverka í þeim slysum sem verða. Það öryggistæki sem hefur án efa skilað einna mestum ávinningi er öryggisbeltið.

Bílbelti
Árið 1981 voru gerðar breytingar á umferðarlögum þar sem að ökumönnum og farþegum var gert skylt að nota öryggisbelti ef þau væru til staðar í tækinu.

Til að bílbelti virki sem skyldi má það ekki vera snúið og þarf að falla vel að líkama. Aldrei má setja belti fyrir aftan eða undir handlegg heldur þarf það að sitja sem næst líkama einstaklings. Bílbeltanotkun á meðgöngu er ekki síður mikilvæg, barnshafandi konur þurf að hafa í huga að bílbeltið liggi ekki þvert yfir kvið þeirra heldur undir kúlunni eða yfir mjaðmagrind.

Þótt mikilvægi bílbelta sé flestum ljóst eru enn margir sem hirða ekki um að nota þennan sjálfsagða öryggisbúnað. Aukin bílbeltanotkun getur fækkað banaslysum og fækkað mikið slösuðum.

Öryggi barna í bíl

Öryggisbelti eru hönnuð með öryggi fullorðinna að leiðarljósi og því er mikilvægt að börn sitji í sérútbúnum öryggisbúnaði sem hæfir hæð þeirra og þyngd. Þannig má barn sem er lægra en 150 cm á hæð ekki sitja í framsæti gegnt virkum öryggispúða og barn sem er lægra en 135 cm á hæð skal ávallt vera í öryggis- og verndarbúnaði sem hæfir hæð þess og þyngd. Öruggast er að hafa ungabarn í bílstól sem snýr baki í akstursstefnu og er mælt er með því að nota bakvísandi stól til 3 ára aldurs, eða eins lengi og mögulegt er.

Til að tryggja öryggi barns í bíl er mikilvægt að huga að endingartíma og ástandi bílstólsins. Endingartími flestra barnabílstóla er 10 ár fá þeim degi sem hann er tekinn í notkun. Endingartími ungbarnabílstóla er hins vegar skemmri, eða innan við fimm ár. Það getur þó verið mismunandi eftir tegund og framleiðanda. Framleiðsluár stólsins kemur fram á miða sem er límdur á stólinn eða stimplaður á botn hans. Rétt er að hafa í huga að bílstóll getur verið ónýtur þó svo að það sjáist ekki á honum og því er vitneskja um meðferð stólsins mikilvæg.

Þetta er ekki flókið – spennum beltin!

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Auðbjörg B. Bjarnadóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslustöðvarinnar á Kirkjubæjarlaustri.                            

Reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum má nálgast á heimasíðu samgöngustofu undir liðnum lög og reglur.