3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Kannabis er músin sem læðist

Kannabis er músin sem læðist

0
Kannabis er músin sem læðist
Kannabis. Mynd: Wikipedia.

Á dögunum fór blaðamaður í heimsókn á lögreglustöðina á Selfossi. Þar sátu fyrir svörum Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn og Brynja Sverrisdóttir, lögreglufulltrúi. Lögreglan á Suðurlandi hefur orðið vör við talsverða aukningu á notkun kannabisefna á Suðurlandi. Það er þróun sem allir í samfélaginu þurfa að sporna við með öllum ráðum. Í samtali við þau Odd og Brynju kemur fram að Suðurlandið sé í raun smækkuð mynd af því sem er að gerast á höfuðborgarsvæðinu. „Við erum jú með færri einstaklinga en vandamálin eru jafn erfið og flókin úrlausnar. Við, starfsfólkið við embættið, fórum saman á myndina Lof mér að falla, og okkur ber öllum saman um að hún dragi upp afar raunsanna mynd af ástandinu í dag,“ segja Oddur og Brynja.

Ungir neytendur í mestri hættu

Það er mat okkar innan lögreglunnar að mest aðkallandi sé að koma í veg fyrir að nýir neytendur ánetjist efnunum. Þeir sem lenda í hvað mestum vandræðum, eins og jafnvel geðrofi eru nýir neytendur, unga fólkið okkar, krakkar sem eru með stutta sögu um neyslu. Hraðinn í neyslunni er orðinn mikill og vandamálin skapast mun fyrr en áður.

Oddur heldur áfram: „Ungmennin sem fara þessa leið fara hratt niður á við því efnin sem eru á boðstólum eru mjög sterk og þau vita hreinlega ekki hvað þau eru með í höndunum. Þetta er ekki í líkingu við þau efni sem voru hér fyrir áratug, þar sem menn ræktuðu plöntu og komust mögulega í vímu eða ekki. Það er liðin tíð. Efnin eru orðin geigvænlega sterk og jafnvel vanir neytendur tala um að þeir fari sér að voða með þau.“

Forvarnir ættu að hefjast snemma

Við fljótum hægt að feigðarósi í þessum efnum ef við grípum ekki til aðgerða í forvörnum, segja Brynja og Oddur. „Lögreglan hefur heyrt af því að ungum börnum séu boðin efni, allt niður í 11-12 ára aldur. Það er því mikils virði að ræða þetta snemma og í takti við aldur og þroska barnanna. Samfélagslega þarf þetta að fara fram á sem flestum stöðum auðvitað; skólum, fjölmiðlum og ekki síst heima við. Þetta má ekki verða einn fyrirlestur á vetri heldur þarf þetta að vera lifandi í umræðunni. Það er ekki hægt að leggja á það næga áherslu hve mikilvægt það er að forða börnum frá þessum hörmungum.“

Umræða á villigötum

„Við hjá lögreglunni teljum að umræðan fái að ganga allt of langt og algerlega gagnrýnilaust. Að kannabisefnum sé stillt upp sem nánast hættulausu efni af óábyrgum aðilum. Það er ekki sú mynd sem við sjáum í raunveruleikanum. Þessi efni eru stórhættuleg og það er þyngra en tárum taki að horfa upp á harminn sem þau valda, ekki bara neytandanum heldur hans fjölskyldu og nærumhverfi. Á þetta hefur verið marg bent af lögreglu, læknum, aðstandendum og fleiri aðilum. Þá höfum við marg oft heyrt frá höndum neytenda sem lengi hafa barist við fíknina að kannabis sé það efni sem hvað erfiðast sé að láta af. Kannabis sé músin sem læðist.“

Hvernig má takast á við vandann?

Aðspurð segja Brynja og Oddur bæði; „Myndin er ekki einföld og ekkert einfalt svar til við því. Forvarnir eru þó útgangspunkturinn sem við teljum að vigti hvað þyngst. Lögleiðing leysir engin vandamál, því eftir sem áður verða vandamálin á borði lögreglunnar þegar einstaklingur er í slæmu ásigkomulagi vegna neyslu. Þá myndi breyta myndinni talsvert að hafa alvöru og raunverulegt úrræði sem einstaklingur í neyslu og slæmu ástandi gæti nýtt strax. Að valið standi ekki á milli götunnar eða fangelsisklefa. Hvorugt er til þess að hjálpa. Ef einstaklingur er undir áhrifum efna er enginn staður sem tekur við honum nema lögregla og þá í fangaklefa. Það er okkar mat að það sé ekki til þess fallið að aðstoða fólk í þessu ástandi og myndum gjarna vilja sjá breytingu hér. Að einhver staður geti tekið við einstaklingnum og hann fái hjálp við að koma sér á fæturna aftur áður en það er orðið of seint.“