-6.5 C
Selfoss

100 ár frá opnun Landsbankans á Selfossi

Vinsælast

Landsbankinn opnaði útibúi á Selfossi, hið fyrsta á Íslandi utan þéttbýlis og utan sjávarsíðunnar, þann 4. október 1918 og því eru í dag 100 ár liðin frá því að bankastarfsemi hófst á Selfossi. Af þessu tilefni verður boðið upp á veitingar og skemmtidagskrá í útibúinu í dag kl. 14 og 16.

Starfsmennirnir bjuggu í útibúinu
Það var ekki sjálfsagt mál að opna útibúi á Selfossi árið 1918. Bændur í Árnessýslu höfðu þrýst á um að fá bankaútibú í þetta blómlegasta landbúnaðarhérað landsins. Tekist var á um staðsetninguna og fannst mörgum þéttbýlið á Eyrarbakka hentugri staðsetning. Gátu formælendur Eyrarbakka m.a. bent á að „við Ölfursárbrú“ eins og byggðin var þá kölluð, bjuggu aðeins um 50 manns. Selfoss varð þó ofan á og haustið 1918 opnaði útibúið með þremur starfsmönnum, þeim Eiríki Einarssyni frá Hæli, sem var útibússtjóri, Guðmundi Guðmundssyni, gjaldkera, og föður hans, séra Guðmundi Helgasyni frá Birtingaholti. Allir bjuggu þeir í Tryggvaskála og það næddi um þá um veturinn. Eiríkur orti þetta um búsetuna:

Þetta hús er þrotlaus göng
þytgátt norðanbála.
Koma munu köld og löng
kvöld í Tryggvaskála       

Útibú Landsbankans opnaði í Tryggvaskála 4. október 1918. Myndin var tekin á árunum 1911–1918. Ljósmynd: Úr safni Gunnars Sigurgeirssonar/Óþekktur ljósm./Byggðasafn Árnesinga.

Útibúið verið 65 ár í „nýja húsinu“
Strax ári síðar flutti bankinn í nýtt hús sem hafði verið reist sem verslunarhús í Búðardal 1899. Landsbankinn lét taka það niður og flytja það sjóleiðina til Eyrarbakka og þaðan upp á Selfoss. Í húsinu, sem nú gengur undir nafninu Gamli bankinn, var Landsbankinn með starfsemi sína í 34 ár. Sigfús Kristinsson, byggingaverktaki á Selfossi, er nú eigandi hússins og hefur það varðveist vel í hans eigu og er bæjarprýði. Útibúið flutti í núverandi húsnæði að Austurvegi 20 haustið 1953.

Viðskiptasagan spannar heila öld
Fyrstu árin og áratugina á Selfossi voru viðskiptavinir bankans fyrst og fremst bændur og síðar fyrirtæki sem tengdust landbúnaði, en bankinn kom m.a. að fjármögnun Flóaáveitunnar, Kaupfélags Árnesinga og Mjólkurbús Flóamanna. Eftir því sem nýir atvinnuvegir uxu og fólki fjölgaði varð starfsemi útibúsins fjölbreyttari. Mikil áhersla er sem fyrr lögð á að veita bændum fyrsta flokks þjónustu. Mörg bú hafa verið í viðskiptum allt frá stofnun útibúsins 1918, kynslóð fram af kynslóð, og eru dæmi um að viðskiptasambandið spanni heila öld.

Nína G. Pálsdóttir, útibússtjóri Landsbankans á Selfossi.

Virkur þátttakandi í uppbyggingu Árnessýslu
Landsbankinn rekur 30 útibú og afgreiðslur utan höfuðborgarsvæðisins og í Árnessýslu einni er bankinn með þrjá afgreiðslustaði, þ.e. á Selfossi, í Þorlákshöfn og í Reykholti. Bankinn hefur verið virkur þátttakandi í þeirri miklu uppbyggingu sem átt hefur sér stað í sýslunni undanfarin ár og hefur m.a. komið að fjármögnun á um 350–400 íbúðum síðastliðin 3–4 ár.

Hlutverk útibúa og starfsemi þeirra er að breytast. Viðskiptavinir bankans leysa nú um 90% af sínum bankaerindum á netinu eða í símanum. Sífellt fleiri aðgerðir sem áður kröfðust heimsóknar í útbú er hægt að framkvæma í netbankanum eða Landsbankaappinu. Útibúin eru engu að síður mikilvæg. Hvað sem stafrænni tækni líður vill fólk áfram fá góða og trausta fjármálaráðgjöf. Persónuleg tengsl við viðskiptavini og staðbundin þekking skipta enn miklu máli.

Starfsfólk Landsbankans á Selfossi vill þakka viðskiptavinum sínum kærlega fyrir viðskiptin og viðkynninguna í gegnum árin og vonast til að sjá sem flesta í bankanum á afmælisdaginn.

 

Nýjar fréttir