-6.6 C
Selfoss

Trésmiðja og leiðsögn í Listasafni Árnesinga

Vinsælast

Sunnudaginn 30. september nk. verður boðið upp á tvo dagskrárliði í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Annars vegar listasmiðju fyrir fjölskyldur þar sem unnið verður með tré á margvíslegan hátt og hins vegar leiðsögn og spjall um keramíksýninguna Frá mótun til muna.

Hvernig er hægt að vinna með tré á einfaldan hátt? Það munu listgreinakennararnir Klara Öfjörð Sigfúsdóttir og Kristín Þóra Guðbjartsdóttir sýna á listasmiðju sem haldin verður í Listasafni Árnesinga kl. 14:00–16:00 á sunnudaginn. Kristín Þóra hlaut nýverið viðurkenningu skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur 2018 fyrir lokaverkefni sitt frá listkennsludeild LHÍ sem bar heitið SKYNJAÐU, UPPLIFÐU, NJÓTTU – Miðlun menningararfs og menningar hversdagsins, en Kristín deilir nú stöðu fræðslufulltrúa við Listasafn Árnesinga ásamt Hrönn Traustadóttur. Klara hefur verið kennari í Sunnulækjarskóla þar sem hún kenndi börnum m.a. að tálga og vinna áhugaverða hluti úr nærumhverfinu og hún hefur einnig unnið stundavinna við safnið. Þetta er fyrsta listasmiðjan af fjórum sem í boði verða í Listasafni Árnesinga fram að áramótum, þar sem unnið verður m.a. út frá sýningum safnsins. Listasmiðjurnar munu fara fram síðasta sunnudag hvers mánaðar og eru ætlaðar börnum og aðstandendum þeirra. Þátttaka í listasmiðjunum er ókeypis og allt efni á staðnum.

Rakú – Frá mótun til muna
Hvað er rakú, sagbrennsla og pottbrennsla? Hvaða áskoranir fylgja vinnu með leir? Heimildarmyndin, Rakú – Frá mótun til muna, er kjarni samnefndrar sýningar sem nú stendur yfir í Listasafni Árnesinga á keramiki sem unnið var með gömlum leirbrennsluaðferðum. Leirlistakonurnar Steinunn Aldís Helgadóttir og Hrönn Waltersdóttir, sem báðar eiga verk á sýningunni, munu ræða við gesti sunnudaginn kl. 15:00 og svara þá m.a. þessum spurningum eða öðru sem gestir hafa áhuga á að fá upplýsingar um. Báðar hafa unnið lengi með leir og leitað sér víðtækrar menntunar á því sviði og voru hvatamenn ásamt Ingibjörgu Klemenzdóttur að byggingu rakúofns við vinnustofu Ingibjargar í Ölfusi sem og vinnusmiðju um gamlar brennsluaðferðir. Sýningin byggir á þeirri vinnusmiðju og þar má sjá fjölbreytta muni eftir þá níu leirlistamenn sem tóku þátt í þeirri smiðju.

Nánari upplýsingar um sýningarnar og dagskrá safnsins má sjá á heimasíðu þess og samfélagsmiðlum. Frá og með október tekur vetraropnun við í Listasafni Árnesinga og er safnið þá opið kl. 12-18 fimmtudaga – sunnudaga. Aðgangur að safninu sem og þátttaka í listasmiðjum og leiðsögn um sýningar er ókeypis og allir velkomnir. Listasmiðjurnar og gerð heimildarmyndarinnar Rakú – Frá mótun til muna fengu styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Nýjar fréttir