-6.6 C
Selfoss

Nýr Herjólfur mun hefja siglingar 30. mars á næsta ári

Vinsælast

Stefnt er að því að hefja reglulegar siglingar á nýrri Vestmannaeyjaferju, nýjum Herjólfi frá Landeyjahöfn þann 30. mars á næsta ári. Þangað til mun núverandi Herjólfur sigla milli lands og Eyja.

Nýja ferjan, er í smíðum hjá skipasmíðastöðinni Crist S.A. í Gdansk í Póllandi. Afhending hefur dregist meðal annars vegna breytinga á búnaði skipsins en einnig hafa orðið tafir hjá skipasmíðastöðinni. Ekki er ljóst á þessu tímapunkti hver nákvæmur afhendingartími verður en á þessari stundu er miðað við að það verði öðruhvoru megin við áramótin. Hvorki rekstaraðilum né yfirvöldum hugnast vel að hefja rekstur á nýju og breyttu skipi um háveturinn og því er þessi tími valinn í lok mars. Tíminn frá afhendingu og þar til rekstur hefst verður notaður til prófana á sjólagi skipsins og til þjálfunar á áhöfn, en búnaður skipsins er talsvert breyttur frá gamla Herjólfi.

Nýi Herjólfur hefur búnað sem gerir kleift að knýja skipið alfarið með raforku og er það í fyrsta sinn sem slík tækni er tekin til notkunar hér á landi. Með því móti er leitast við að leggja grunn að umhverfisvænum rekstri á nýju ferjunni og samgöngum við Vestmannaeyjar.

Núverandi Herjólfur mun sinna flutningum með sama hætti og verið hefur þar til ný ferja verður tekin í notkun og mun Eimskip reka ferjuna með óbreyttu sniði.

Með nýjum Herjólfi er reiknað með að frátafir í Landeyjahöfn minnki til muna sem mun auðvelda Vestamannaeyingum ferðalög upp á land en ekki síður auka möguleika ferðaþjónustunnar í Eyjum. Vonir standa til þess að með nýja skipinu lengist ferðamannatímabilið í kjölfar þess að siglingar í Landeyjahöfn verða stöðugri. Það hefur sýnt sig að ferðamenn ferðast nær eingöngu í gegnum Landeyjahöfn á leið sinni til Vestmannaeyja. Það er því ljóst að með nýju skipi hefst nýr og áhugaverður kafli í samgöngusögu Vestamannaeyja.

Nýjar fréttir