-3.6 C
Selfoss
Home Fréttir Krabbameinsfélag Árnessýslu í stöðugri uppbyggingu

Krabbameinsfélag Árnessýslu í stöðugri uppbyggingu

0
Krabbameinsfélag Árnessýslu í stöðugri uppbyggingu

Nýtt starfsár Krabbameinsfélags Árnessýslu hófst nú í september og er dagskráin fyrir haustönn að verða tilbúin. Markmið félagsins að þessu sinni er að efla þjónustu og fræðslu til aðstandenda og fjölskyldna auk þess að halda áfram að styðja og styrkja félaga sem hafa greinst með krabbamein.

Krabbameinsfélagið mun standa fyrir ýmsum fyrirlestrum á komandi starfsári og verða þeir haldnir einu sinni í mánuði. Fyrirlestrarnir verða opnir fyrir alla sem hafa áhuga á að hlíða á erindin og eru öllum að kostnaðarlausu. Félagið mun bjóða upp á léttar veitingar gegn vægi gjaldi á meðan fyrirlestrunum stendur og er því mikilvægt að skrá þátttöku svo hægt sé að áætla magn af mat. Fyrirlestrarnir verða auglýstir þegar nær dregur.

Félögum Krabbameinsfélagsins býðst að taka þátt í jóga tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 16:00. Gott samstarf hefur myndast meðal félagsins og jógastöðvarinnar Jóga Sálir. Mun jóga verða í boði fyrir félaga í allan vetur.

Krabbameinsfélag Árnessýslu nýtur góðs stuðnings og ráðgjafar sérfræðinga hjá Ráðgjafastofu Krabbameinsfélagsins og hefur náðst samkomulag um að bjóða þjónustu þeirra í auknu mæli í heimabyggð. Ráðgjafastofan mun vera með regluleg viðtöl einu sinni í viku á Selfossi og eru þau ávallt fólki að kostnaðarlausu. Viðtalstímar og sérsvið þeirra sem veita viðtölin verða auglýst síðar.

Að venju mun félagið taka virkan þátt í Bleikum október og verður meðal annars Bleik messa í Selfosskirkju sunnudaginn 28. október. Félagið undirbýr einnig skemmtilegt Bleikt boð sem haldið verður í lok október. Undirbúningur er í vinnslu og verður boðið auglýst betur þegar nær dregur.

Auk alls þessa sem að ofan hefur verið talið mun stuðningshópurinn Brosið halda áfram að vera með reglulegar samverustundir. Markmið hópsins er að veita jafningjafræðslu, stuðning og félagsskap. Hópurinn er öllum opinn, bæði einstaklingum sem hafa greinst með krabbameins, sem og aðstandendum þeirra.

Símatími félagsins verður einnig aukinn og verður nú hægt að hringja í starfsmann félagsins alla virka daga kl. 9–16 í síma 788 0300.

Einnig má minna á Facebook-síðu félagsins (Krabbameinsfélag Árnessýslu og Brosið).

Fyrir hönd Krabbameinsfélags Árnessýslu,
Svanhildur Ólafsdóttir, formaður.