1.7 C
Selfoss
Home Fréttir Haustlitir og útivist fyrir alla fjölskylduna

Haustlitir og útivist fyrir alla fjölskylduna

0
Haustlitir og útivist fyrir alla fjölskylduna
Fallegir haustlitirnir fanga augað.

Fallegir haustlitir geta dáleitt nánast hvern sem er. Gulir og rauðir litatónar fanga augað og gefa tilefni til þess að staldra við og skoða gróðurinn betur.

Dagskráin hafði samband við Pálínu Ósk Hraundal, ferðamálafræðing og útivistarkonu, sem lá ekki á hugmyndum sínum um útivist á haustin:
„Nú er tilvalið að fara í haustlitaferð sem dæmi. Það má safna laufblöðum, könglum og sprekum til þess að föndra úr allskyns listaverk“.

Í Útilífsbók fjölskyldunnar, eftir Pálínu og Vilborgu Örnu Gissurardóttir má finna ýmsar tillögur að föndri ef fólk vill. „Meðal þess vinsælasta í föndrinu er litaveiði. Litaveiðin gengur þannig fyrir sig að börnin mála sitt hvorn litinn í eggjabakka. Svo finna þau hluti í náttúrunni sem passa í hólfin eftir lit“, segir Pálína.

Pálína er reyndur útivistargarpur og hefur mikla reynslu af fjölskyldutengdri útivist. „Útivist með þema hentar fullorðnum jafnt sem börnum ákaflega vel. Það er hægt að taka með nesti og borða saman. Gangan og ferðin verður líka auðveldari og skemmtilegri þegar litlir fætur hafa eitthvað markmið“, segir Pálína að lokum.