-1.1 C
Selfoss

Fab Lab – hvað er það?

Vinsælast

Fjölbrautaskóli Suðurlands býður nú í fyrsta skipti upp á áfanga í svo kölluðu Fab Lab. Fab Lab kemur af ensku orðunum Fabrication Laboratory og er eins konar framleiðslu tilraunastofa og stafrænt verkstæði. Hugmyndin á rætur sínar að rekja til Center for Bits and Atoms hjá MIT háskólanum í Massachusetts í Bandaríkjunum.

Markmiðið með Fab Lab er að auka þekkingu á persónumiðaðri framleiðslu, stafrænum framleiðsluaðferðum í iðnaði og efla nýsköpun. Þá er Fab Lab ætlað að auka tæknilæsi og almenna tæknivitund, svo og að skapa vettvang fyrir nýsköpun og efla samkeppnishæfni nemenda, menntastofnana og fyrirtækja.

Í Fab Lab smiðjunum er búnaður til þess að raungera hugmyndir með hjálp tölvustuddrar hönnunar og framleiðslutækni. Þar eru meðal annars tölvustýrðir laserskerar, vinylskerar, fræsivélar, þrívíddarskannar og þrívíddarprentarar og rafeindaverkstæði svo eitthvað sé nefnt.

Ýmis konar annar búnaður er í Fab Lab smiðjunum  en tækja- og hugbúnaður. Þá er átt við t.d. hráefni, verkfæri og fleira sem hægt er að nýta til þess að kveikja hugmyndir. Markmið Fab Lab smiðja er að auka færni einstaklinga til að hanna og skapa nýja tækni með þann tilgang að verða  gerendur en ekki eingöngu neytendur.

Nú er þessi aðstaða orðin til staðar í Hamri, hinu glæsilega verknámshúsi FSu og því hægt að bjóða nemendum upp á Fab Lab áfanga. Nemendur kynnast áhöldum smiðjunnar í gegnum fjölbreytt verkefni. Í smiðjunni öðlast þeir færni til að virkja sköpunarkraft sinn og hrinda hugmyndum í framkvæmd með hönnun, mótun og framleiðslu hluta með aðstoð stafrænnar tækni. Kennt er á tvívíddar og þrívíddar teikniforrit sem henta fyrir hönnun og nýsköpun. Nemendur geta síðan framleitt frumgerðir verkefnanna í tölvustýrðum tækjum.

Fab Lab Selfoss er samstarfsverkefni Fsu, Héraðsnefndar Árnesinga, Háskólafélags Suðurlands, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Atorku – félags atvinnurekenda á Suðurlandi og Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga. Með þessu samstarfi er hægt að bjóða öllum grunnskólum á Suðurlandi, framhaldsskólanemum og sunnlenskum almenningi aðgang að smiðjunni.

Mikið hefur verið rætt um hnignandi þátttöku ungs fólks í iðn-, verk- og tækninámi og hefur Fab Lab smiðjan það sem eitt af sínum markmiðum að vekja áhuga á þess háttar námi með því að tengja betur ýmislegt þvert á greinar og því má segja að smiðjan sinni ákveðnu forvarnastarfi. Grunn- og framhaldsskólar eru með fasta tíma inni í smiðjunni en auk þess verður smiðjan með opna tíma og námskeið fyrir almenning og fyrirtæki.

Smiðjustjóri er Magnús Stephensen Magnússon en auk hans kennir Ágústa Ragnarsdóttir Fab Lab áfangann fyrir FSu.

Nýjar fréttir