2.3 C
Selfoss
Home Fréttir Afmælishátíð í tilefni 90 ára afmælis Sambands sunnlenskra kvenna

Afmælishátíð í tilefni 90 ára afmælis Sambands sunnlenskra kvenna

0
Afmælishátíð í tilefni 90 ára afmælis Sambands sunnlenskra kvenna

Þann 30. september n.k. eru liðin 90 ár frá stofnun  Sambands sunnlenskra kvenna en það var stofnað 1928.

Af þessu tilefni efnir SSK til afmælishátíðar í Haukadalsskógi og að Hótel Geysi í Biskupstungum á afmælisdaginn, sunnudaginn 30. september og hvetur allar kvenfélagskonur á Suðurlandi til að fagna þessum tímamótum saman.

SSK eru samtök kvenfélaga í Rangárvalla- og Árnessýslu og starfar í nafni þeirra. Tildrögin að stofnun sambandsins voru að Halldóra Bjarnadóttir heimilisiðnaðarráðunautur á Blönduósi sendi bréf vorið 1927 til nokkurra kvenna á Suðurlandi og hvatti þær til að efna til kvennafundar og heimilisiðnaðarsýningar. Efnt var til þessa viðburðar í Tryggvaskála og þar hvatti Halldóra til að konur stofnuðu kvenfélög í þeim hreppum sem engin slík væru enn. Einnig hvatti hún til að kvenfélögin stofnuðu samband sín á milli til að sameinast í átökum um velferðarmál til blessunar og framfara fyrir héraðið.

Samband sunnlenskra kvenna var síðan stofnað í Þjórsártúni 30. september 1928 og var Herdís Jakobsdótttir Kvf. Eyrarbakka einróma kosin fyrsti formaður þess. Aðalmarkmið með stofnum sambandsins var að vinna að aukinni húsmæðrafræðslu, og efla heimilisiðnað og garðrækt og viðhalda þjóðlegum verðmætum.

Árið 1929 hófst Sambandið handa við undirbúning fyrir stofnun húsmæðraskóla á Suðurlandi. Húsmæðraskóli Suðurlands tók síðan formlega til starfa í Lindinni á Laugarvatni árið 1943. Fram að þeim tíma hafði sambandið gengist fyrir námskeiðum og útvegað leiðbeinendur um tóvinnu, fatasaum og garðrækt út í sveitirnar. Markmiðið var að enginn ull færi óunnin vestur yfir Hellisheiði. Einnig beittu þær sér fyrir stofnun ullaþvottastöðvar og keyptar voru spunavélar, prjónavélar og vefstólar, jafnframt var hvatt til handavinnukennslu í öllum barnaskólum og að kennarar hlytu menntun sem slíkir.

Sambandið beitti sér fyrir stofnun sjúkrahúss á Suðurlandi. Konur höfðu fram að þeim tíma hjúkrað öldruðum og sjúkum á heimilum sínum. Hjálparstúlkur á vegum SSK ferðuðust um héraðið og aðstoðuðu við umönnun bágstaddra. Sjúkrahúsið tók til starfa árið 1958 og var til húsa í bústað héraðslæknisins á Selfossi. Meðal annars saumuðu kvenfélagskonur fatnað, sængurföt og gluggatjöld til nota á sjúkrahúsinu. Sjúkrahússjóður SSK var stofnaður árið 1952 og síðan þá hefur sambandið í nafni allra kvenfélaganna styrkt kaup á tækjum og búnaði til þess. Á afmælisárinu voru Heilbrigðisstofnun Suðurlands afhent þrjú ný mikilvæg tæki sem auka öryggi verðandi mæðra og nýbura á fæðingadeild HSu. Verðmæti þessara tækja er yfir 3 milljónir, sem eru afrakstur sameiginlegrar fjáröflunar allra sambandsfélaganna.

SSK háði harða baráttu til að koma í veg fyrir að fæðingaþjónusta á Suðurlandi legðist af og hefur stuðlað að uppbyggingu fyrirmyndar aðstöðu á fæðingadeild HSu. Því ber að fagna að konur sem þess óska geta alið börn sín í heimabyggð.

Frá árinu 1999 og til þessa dags hefur Samband sunnlenskra kvenna gefið til HSu gjafir úr Sjúkrahússjóði SSK fyrir um 25 milljónir króna (ekki framreiknað til núvirðis). Þá eru algjörlega ótaldar allar þær gjafir sem kvenfélögin hvert og eitt hafa gefið til heilsugæslustöðva, öldrunarheimila og sjúkrahússins. Á síðasta ári má áætla að konur innan SSK hafi lagt til samfélagsins að lágmarki 15.000 vinnustundir eða 1.875 dagsverk. Hvert kvenfélag leggur metnað sinn í að sinna vel nærsamfélagi sínu með ýmsum gjöfum. Á síðasta ári gáfu kvenfélögin gjafir fyrir samtals 14.507.000.

Hlutverk kvenfélaga í nútímanum – er enn þörf fyrir samstöðu kvenna.
Við þessi tímamót í sögu sunnlenskra kvenna er rétt að staldra við og spyrja; Hvers vegna kvenfélög?  Höfum við ekki öðlast öll þau lífsgæði sem þörf er á? Er þörf á samtakamætti kvenna bæði til að verja það sem áunnist hefur og til að takast á við málefni líðandi stundar?

Enginn félagsskapur er betri en einstaklingar sem mynda hann. Kvenfélagskonur geta borið höfuð hátt og verið stoltar af framlögum sínum til samfélagsins. Þær njóta þess að vinna saman að góðum verkum og gleðjast yfir árangrinum.

Það eru margvísleg mál sem brenna á samfélaginu í dag. Læsi barna og ungmenna, andleg líðan og sjálfsmynd ungs fólks og ekki síst heilbrigðis- og öldrunarmál, sem verða æ mikilvægari með hækkandi aldri og lífslíkum þjóðarinnar. Brothættar byggðir og aðlögun fólks frá framandi menningarheimi. Umgengni við auðlindir landsins og verndun náttúru. Barátta gegn hverskyns sóun og mengun. Fræðsla um margvísleg efni sem snerta rekstur heimila og sjálfbærni á mörgum sviðum. Allt eru þetta málefni sem KÍ, SSK og kvenfélögin láta sig varða.

Á afmæisárinu 2018 vinnur SSK með kjörorðið „Forvarnir – lykill að bættri lýðheilsu“. Áhersla í formi fyrirlestra hefur verið lögð á heilsueflingu og mikilvægi hreyfingar. Á næstu mánuðum verður áherslan lögð á varnir gegn mengun og sóun í umhverfinu og með hvaða ráðum hægt er að draga frekar úr notkun mengandi umbúða í daglegu lífi.

SSK á aðild að Kvenfélagasambandi Íslands, sem er öflugur málsvari kvenna á opinberum vettvangi. Landsþing KÍ verður haldið á Húsavík í október n.k. undir kjörorðinu „Fylgdu hjartanu“.

Á tímum samfélagsmiðla og ofgnóttar alls er enn full þörf á kvenfélögum, að konur hittist, ræði málin og eigi gæðastundir saman. Það er nú einu sinni svo að maður er manns gaman. Að vera í kvenfélagi er ómetanlegt ef eitthvað bjátar á og hjálpar er þörf. Það er gefandi að styðja við góð og uppbyggileg mál í þágu samfélagsins og konur ná eyrum ráðamanna þegar þær standa saman.

F.h. Sambands sunnlenskra kvenna,
Pálína Halldóra Magnúsdóttir ritari
Elinborg Sigurðardóttir formaður