Á fundi bæjarráðs Ölfuss kom fram að nokkur brögð væru að því að sá tími sem ætlaður væri í skólakstur væri ekki nægilega rúmur. Bæjarráð brást tafarlaust við þessu með samþykkt um að bæta við þriðja bílnum við skólaaksturinn á morgnana. Eftir hádegi yrðu tveir bílar til að aka börnunum heim eftir skóla. Með því styttist ferðatími barnanna í bílunum talsvert, en sá tími sem hvert barn varði í bílnum þótti umfram það sem æskilegt þykir. „Sérstaklega skal horft til þess að einn bíll aki um suðursvæðið, frá Hrauni að Hveragerði, annar bíll um svæðið norðan Ölfusár og að þjóðvegi og þriðji bíllinn um Hvammsveg og svæðið þar norðan þjóðvegs.“
Bæjarráð fól einnig starfsmönnum að óska eftir hugmyndum frá foreldrum um heppilegar tímasetningar fyrir ferðirnar tvær sem eru fyrir börnin heim að loknum skóla.