Ég skynjaði að haustið væri á næsta leiti þegar ég keyrði til Akureyrar. Trjágróður hér sunnan heiða hafði hægt mikið á vexti en gulir og rauðir litir voru varla komnir á blöð trjágróðurs, nema vegna þurrka eða óværu.
Strax norðan Holtavörðuheiðar, voru litir umhverfisins mun skarpari, svo „ég slökkti á útvarpinu svo ég gæti séð alla þessa dýrð”. Það sem við upplifum, breytir bæði líðan, hugsun og tilfinningum. Á Akureyri var mér tjáð að talsvert frost hafi verið um nóttina.
Lífeðlisfræði haustlitanna er margþætt fyrirbæri. Segja má að undanfari þeirra hefjist er sólin fer að lækka á lofti. Eftir það er í gangi forðasöfnun, þroski og fræmyndun. Líkamsklukka plantna stjórnast mikið af magni og gæðum sólarljóssins.
Blaðgræna brotnar niður með lækkandi sól og litarefni fara að myndast. Þau verja plöntuna fyrir of miklu ljósi, en of mikið ljós getur sett ljóstillífun aftur á fullt og þá verður vöxtur í gangi þegar vetur gengur í garð. Þá kelur trjágróður.
Geymslu og tilfærslu á forða innan hverrar plöntu er stjórnað m.a. af þessum litarefnum. Magn litarefna í plöntum getur líka ráðist af aðgengi að vatni, áburðargjöf og sýrustigi í jarðvegi svo fátt eitt sé nefnt. Bæði áburðargjöf og tímasetning hennar hefur áhrif á þessi litarefni og haustlitina. Vitað er að köfnunarefni (sem eykur blaðvöxt) og áburðargjöf eftir vortímann, minnkar haustliti, þ.e. plantan er að vaxa of lengi fram eftir haustinu.
Einn mest áberandi guli litur haustsins er sá litur sem einatt rennur á lerkitré. Barrtré og lerki eru mikið augnayndi þar sem þau standa saman. Lerkið fellir blöðin/nálarnar yfir veturinn en ekki barrtrén.
Einhverjir kannast sennilega við mismunandi rauð blöð á rauðblaðarós, en meira rautt litarefni myndast ef jarðvegurinn er súr. Almennt er gróður gulleitari, ljósgrænni, trénar fyrr og gengur fyrr frá sér fyrir veturinn í þurrkatíð.
Allar lífverur eru gæddar einhverskonar eðli, innsæi eða skynjun gagnvart umhverfi sínu og aðstæðum. Það fer vel á því að kalla það “lífsklukku”, en hefur sennilega lítið með tíma að gera hjá lauffellandi trjágróðri samanber lífeðlisfræði haustlita, hér ofar.
Rabbabari blómstrar fyrripart sumars ef hitastigið hefur farið of lágt á viðkvæmum tíma snemma vors. Kálplöntur bregðast eins við, rótargrænmeti sem safnar forða í rótina neðanjarðar, sleppir því af hagkvæmniástæðum og blómstrar frekar (hleypur í njóla). Þær telja sér betur borgið með þeim hætti. Strax þá hefst ferlið sem leiðir til trénunar og haustlitabrigða.
Maðurinn hefur mikið látið af því að reiða sig á þessa hæfni sína og valið klukkuna, dagatalið, boð og bönn til að krafla sig áfram og lifa af í samfélagi við aðra einstaklinga og/eða lífverur. – Og þá hvarf tilfinning okkar fyrir umhverfinu og “rányrkja” okkar hófst. “Sjálfbærni” er öndverða rányrkjunnar.
Upplýsingar eða tillögur að öðru efni má fá/koma til skilaí síma 892 7709 eða benni@sjalfbaer.com.