2.3 C
Selfoss
Home Fastir liðir Matgæðingur vikunnar er Davíð Þór Kristjánsson

Matgæðingur vikunnar er Davíð Þór Kristjánsson

0
Matgæðingur vikunnar er Davíð Þór Kristjánsson
Davíð Þór Kristjánsson.

Ég þakka honum Guðbrandi vini mínum kærlega fyrir þessa skemmtilega áskorun. Líkt og Guðbrandur þá langar mig að halda þessari uppskrift við veiði en stangveiðitímabilið er alveg að fara að ljúka.
Mig langar að deila með ykkur lesendum minni uppáhaldsuppskrift að sjóbirtingi, en það er ekki verra að hann sé héðan úr Ölfusánni eða nágrenni.

Fyrir átta

1,5 kíló af nýveiddum ferskum sjóbirtingi
1 sítróna
Salt og pipar
1 krukka mangó chutney
1 matskeið fersk engiferrót, rifin
1 rauð paprika
1 Camembert
Pistasíukjarnar

Skerið sjóbirtingsflökin í bita og raðið í eldfast mót. Kreistið safann úr sítrónunni yfir og kryddið með salti og pipar eftir smekk. Smyrjið þá mango chutney yfir flökin og er magnið eftir smekk. Stráið svo í framhaldi engiferrótinni yfir. Skerið þá paprikuna í litla bita og setjið yfir flökin. Þar næst er Camembertosturinn skorinn í þunnar sneiðar og þeim raðað ofan á. Pistasíukjörnum er stráð yfir allt í lokin. Bakið í ofni í um það bil 200 gráður í 20 mín. Borið fram með nýjum íslenskum kartöflum, íslensku smjöri (og nóg af því) ásamt fersku íslensku grænmeti.

Ég ætla að skora á Júlíus Magnús Pálsson vin minn og mikinn matgæðing í næstu viku. Ég veit að hann er með fullt af góðum uppskriftum til að deila með lesendum.