Kver um kerskni og heimsósóma heitir ný bók eftir Helga Ingólfsson sem Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi gefur út.
Í kverinu er að finna vísur og kvæði af ýmsu tagi, einkum gamanmál þar sem skopast er að dægurþrasi líðandi stundar og stjórnmálamenn teknir á beinið, stundum nokkuð stórkarlalega, en inn á milli eru einnig alvarlegri ljóð og stökur. Form ljóðanna er fjölbreytt – kvæði, drápur, limrur, ferskeytlur, slitrur, sléttubönd – en undantekningarlítið er ort í samræmi við hefðbundna bragfræði, með ljóðstöfum og rími.
Helgi Ingólfsson er rithöfundur og framhaldsskólakennari. Eftir hann liggur tugur skáldsagna af ýmsum toga, smásagnasafn, ljóðabók og margt annað hráviði af ritvellinum. Meðal skáldsagna Helga eru Letrað í vindinn – Samsærið sem hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 1994, Þegar kóngur kom sem hlaut Blóðdropann, hin íslensku glæpasagnaverðlaun 2010, og Andsælis á auðnuhjólinu, en eftir þeirri bók var gerð kvikmyndin Jóhannes, með Ladda í aðalhlutverki.