-6.7 C
Selfoss
Home Fréttir Fundarröð um mótun menntastefnu hófst í Árborg

Fundarröð um mótun menntastefnu hófst í Árborg

0
Fundarröð um mótun menntastefnu hófst í Árborg
Frá fundi um mótun nýrrar menntastefnu. Mynd: Árborg.

Fundaröð um mótun menntastefnu Íslands til ársins 2030 hófst í Árborg í gær, mánudaginn 3. september, að viðstöddum mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur og félags- og jafnréttismálaráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni. Á næstu mánuðum fara sem kunnugt fram um land allt, fræðslu- og umræðufundir helgaðir Menntun fyrir alla og því endurmati sem stendur yfir á núgildandi menntastefnu. Alls verður fundað á 23 stöðum á landinu og fara fram tveir fundir á hverjum stað.

Var fyrri fundurinn í gær haldinn í Ráðhúsi Árborgar með forsvarsmönnum sveitarfélaga, fræðslu-, félagsmála- og skólastjórum, völdu starfsfólki fagsviða og fulltrúum skólahjúkrunar og foreldra.

Síðari fundurinn fór svo fram í Barnaskóla Stokkseyrar og hófst hann á hvatningarræðum ráðherranna tveggja. Þann fund sátu aðallega fulltrúar kennara, stjórnenda skólastiga og starfsmanna skóla-, félags- og frístundaþjónustu. Fulltrúi kennara flutti ávarp og fræðimenn við Háskólann á Akureyri héldu erindi, en að þeim loknum hófust hópumræður með nýju þjóðfundarverklagi. Unnið verður úr öllum niðurstöðum að fundaröðinni lokinni.

Eitt af markmiðum nýrrar menntastefnu er að tryggja að allir í skólasamfélaginu líti á skólastarf án aðgreiningar sem grundvöll gæðamenntunar í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Þessi stefna, sem lögfest var hér á landi árið 2008, hefur verið í endurmati og þróun undanfarin ár. Það starf leiðir stýrihópur, sem starfar á breiðum grundvelli. Til grundvallar vinnunni liggja m.a. niðurstöður úr úttekt Evrópumiðstöðvar á núgildandi menntastefnu um menntun fyrir alla.

Miklar og gagnlegar umræður spunnust og segja má að rauði þráðurinn hafi spunnist um það hvernig auka megi bæði samvinnu og flæði innan kerfa og á milli þeirra með þarfir barnsins í brennidepli. Einnig var rætt um hvernig sveitarfélög og ríki geta betur samhæft þjónustu sína í þágu nemenda með gæðamenntun fyrir alla og góð uppvaxtarskilyrið fyrir augum. Af fundum gærdagsins má jafnframt heita ljóst, að sá upphafstaktur sem sleginn var gefi góð fyrirheit um árangur fundaraðarinnar.