Þriðjudaginn 4. september nk. kl. 20:00 verður haldinn fundur í Héraðsskólanum á Laugarvatni. Á fundinum verður kynnt fyrirhugað ferðaþjónustuverkefni á Laugarvatni sem unnið hefur verið að í nokkur ár. Vinnuheiti þess framan af var Þjóðmenningarsetrið, en er nú Krikinn-þjóðmenningarsetur.
Í nýsamþykktu aðalskipulagi Bláskógabyggðar, hefur skilgreiningu verið breytt á tilteknu svæði á Laugarvatni að frumkvæði þessa verkefnis, frá íbúðarbyggð í svæði undir verslun og þjónustu. Svæðið sem um ræðir er sunnan Lyngdalsheiðarvegar og vestan Laugarvatnsvegar, næst Lindarskógi. Erindi liggur nú fyrir sveitarstjórn um að úthluta svæðinu undir verkefnið. Gangi það eftir er jafnframt óskað eftir heimild sveitastjórnar til að vinna tillögu að deiliskipulagi fyrir svæðið sem unnin yrði án útgjalda fyrir sveitarfélagið.
Á fundinum verður Krikinn-þjóðmenningarsetur, sem er afar metnaðarfullt og stórt verkefni, ítarlega kynnt. Af því sem er fyrirhugað má nefna eftirfarandi;
* Jónshús, safnahús í burstabæjarstíl með nokkrar fastar sögusýningar, þar af ein sem yrði tileinkuð Laugvetningnum Þorkeli Bjarnasyni sem var hrossræktarráðunautur BÍ um árabil.
* Baðstofan, fjölnota salur þar sem ákveðin dagskrá verður í gangi, s.s. leikþættir, tónlistarviðburðir, fjölbreyttar kvöldvökur, starfsemi sem mun minna á Landnámssetrið m.a.
* Skálinn, Hlaðan og Betri stofan eru vinnuheiti á þremur ólíkum veitingastöðum og þá, Bjórstofan, fyrir krá.
* Kaffihús, sjoppa, ferðamannverslun (lundabúð), upplýsingamiðstöð o.fl.
* Skeifan, skeifulaga útitorg með torfveggjum er hafi uppá að bjóða bænda og handverksmarkaði sem og margvíslegar uppákomur, skipulagðar sem óvæntar.
* Urðarbrunnur, þar sem þær munu hafast við örlaganornirnar, Urður Verðandi og Skuld.
* Smáhýsi til útleigu, þjónustu og starfamannahús.
* Húsdýragarður með landnámshúsdýrunum en jafnframt megi þar finna landnemana, ref og hreindýr.
* Þá er ætlunin að bjóða uppá hestasýningar. Einnig húsdýrasýningar að Ný-sjálenskri fyrirmynd.
* Í fyllingu tímans er gert ráð fyrir reiðhöll á svæðinu.
* Rétt er að taka það fram, að uppbyggingin er hugsuð í áföngum.
Markmið verkefnisins er að mannvirkin sem og starfsemin öll dragi dám af sterkri ímynd Laugarvatns, þ.e. þjóðleg og menningarleg sem og því að vera staðsett í einu blómlegasta landbúnaðarhéraði landsins. Með þessu verkefni gæti Laugarvatn breyst frá því að vera næstum bara gegnumkeyrslusvæði í virkilega spennandi áfangastað.
Íbúar Bláskógabyggðar eru sérstaklega hvattir til að mæta og þá ekki hvað síst Laugvetningar. Fundurinn er annars öllum opinn. Kaffi/te/vatn og kleinur.