1.7 C
Selfoss

Góður Evrópusigur Selfyssinga

Vinsælast

Karlalið Selfoss lék við litháenska liðið Dragunas í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi í gærkvöldi í EHF bikarnum í handknattleik. Selfyssingar léku síðasta leik sinn í Evrópukeppni fyrir 24 árum en alls hafði karlalið félagsins spilað átta Evrópuleiki. Leikurinn í gærkvöldi var því sá níundi og framundan er sá tíundi í Klaipedas í Litháen eftir viku.

Selfyssingar léku vel í Iðu  í gærkvöldi og unnu sannfærandi sex marka sigur 34:28 eftir að staðan í leikhléi hafði verið 17:13. Á tímabili höfðu Selfyssingar níu marka forskot. Litháarnir náðu að minnka það niður í fjögur mörk en með smá krafti í lokin tókst Selfyssingum að auka forskotið. Þeir fara því með sex mörk í plús í seinni leikin sem verður ytra eftir viku.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk. Árni Steinn skoraði 7 mörk, Hergeir 6, Haukur og Ævar Atli 5 mörk hvor, Guðni 2 og Elvar Örn 1. Hinn nýi pólski markmaður, Pavel Kiepulski, stóð sig vel í markinu og varði 16/1 skot og Helgi Hlynsson varði eitt vítaskot.

 

Nýjar fréttir