-1.1 C
Selfoss

Fyrsti áfangi nýs vegarkafla milli Selfoss og Hveragerðis boðinn út

Vinsælast

Vegagerðin hyggst bjóða út fyrsta áfanga nýs vegarkafla milli Selfoss og Hveragerðis nú í september. Það markar upphafið að langþráðum breytingum á veginum en kaflinn mun taka stakkaskiptum hvað varðar umferðaröryggi. Það helsta sem breytist í fyrsta áfanga er að vegtengingum fækkar og undirgöng koma undir veginn við Varmá, en lengi hefur verið kallað eftir því. Þá verður umferðin aðskilin en vegurinn verður lagður sem 2+1.

Í samtali við Dagskrána segir Svanur Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Suðursvæði: „Töluvert margar vegtengingar eru á kaflanum frá Hveragerði til Selfoss en þær leggjast mestmegnis af og fara um hliðarvegi. Það verða tvær tengingar gerðar inn á þjóðveginn í fyrsta áfanga. Önnur rétt við Eldhesta og svo hin við Ölfusborgir. Sú við Eldhesta tekur við umferð frá svæðinu neðan við veg og sú hjá Ölfusborgum tekur við umferð ofan við veg, “ segir Svanur. Nýju hliðarvegirnir verða samhliða Suðurlandsveginum eins og sjá má á myndinni. „Miðað er við að vegtengingarnar í hvora átt inn á þjóðveginn með svipuðum hætti og sjá má við Bláfjallaafleggjara við Bolaöldur,“ segir Svanur.

Vegagerðin gerir ráð fyrir því í framtíðinni að geta breikkað veginn frekar án mikilla vandræða. „Undirbygging vegarins verður 2+2 þannig að þegar þess verður þörf er allt klárt til þess að malbika ofan á undirbygginguna og bæta við akreinum í báðar áttir. Einnig er gert ráð fyrir mislægum vegamótum í framtíðinni“, segir Svanur að lokum.

Nýjar fréttir