-7 C
Selfoss

Bein útsending var frá íbúafundi í Ölfusi vegna urðunarstaðar á Nessandi

Vinsælast

Sorpstöð Suðurlands (SOS) hélt íbúafund fyrir íbúa Ölfuss fimmtudaginn 23. ágúst sl. Fundurinn var vel sóttur en þar voru um 50-60 manns saman komnir í Ráðhúsi Ölfuss.Fundinum var einnig sjónvarpað beint á Facebooksíðu Ölfuss en um 800 manns fylgdust með útsendingunni.

Efni fundarins var að kynna uppbyggingu á mögulegum urðunarstað á Nessandi. Opnun urðunarstaðarins yrði hluti af samstarfi sorpsamlaga á Suðvesturlandi.

Vinna hefur verið í gangi við heildarskipulag í förgunarmálum sem gerir ráð fyrir að brennsla úrgangs fari fram í Kölku, sorpbrennslu á Suðurnesjum og SORPA bs. á höfuðborgarsvæðinu gerir ráð fyrir að sinna meðhöndlun úrgangs í nýrri jarð- og gasgerðarstöð í Álfsnesi. Urðun á jarðefnum og óvirkum úrgangi yrði fundinn staður á starfssvæði Sorpstöðvar Suðurlands.Horft hefur verið til þess að nýta svæði á Nessandi til þess að opna slíka starfsemi.

Sorpstöð Suðurlands hefur sent inn kynningargögn til Sveitarfélagsins Ölfuss um urðunarstað á Nessandi og í framhaldi af því var íbúafundurinn haldinn. Skiptar skoðanir voru á fundinum um þessar áætlanir og ljóst að málið þarf að skoða vel.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir að sveitarfélagið geri sér grein fyrir því að sorpmál séu veigamikill málaflokkur og þar beri Ölfus ábyrgð eins og önnur sveitarfélög sem aðild eiga að SOS og hinum samlögunum. Elliði segir að fyrsta skrefið sé að kynna þetta vel fyrir íbúum og ráðast í rannsóknir og úttektir. „Huga þarf sérstaklega að öllum mögulegum mengurnar- og umhverfisþáttum sem og hvort og þá hvernig þetta tengist ímynd svæðisins sem er í örum vexti sem matvælaframleiðslusvæði til að mynda með nýtingu ferskvatnslinda, fiskeldi, vinnslu sjávarafurða, landbúnað og margt fleira.“ Enn ríkir óvissa um hver niðurstaðan er varðandi Nessand að sögn Elliða. „Því teljum við afar mikilvægt að samhliða þessu verði kannaðir aðrir mögulegir urðunarstaðir á þjónustusvæðinu.“ Þá kemur fram að bæjarstjórn muni halda íbúum vel upplýstum um framvindu málsins.

Möguleg staðsetning á Nessandi er í 8,5 km frá Þorlákshöfn.

Nýjar fréttir