Kjötsúpuhátiðin verður haldin á Hvolsvelli um helgina. Eins og jafnan er boðið upp á margt skemmtilegt þessa helgi.
Hátíðin hefst á föstudag kl. 17 með uppskeruhátíð Héraðsbókasafns Rangæinga. Þar er öllum krökkum sem skiluðu inn vegabréfum í sumarlestrarátaki bókasafnsins boðið. Á sama tíma verður afhjúpað málverk í safnaðarheimili Stórólfshvolskirkju. Málverkið er gjöf frá Óla Hilmari Briem Jónssyni. Um kvöldið eða kl. 19 hefst svo súpurölt sem er einn af vinsælustu viðburðum Kjötsúpuhátíðarinnar.
Hátíðardagskrá hefst á laugardag kl. 13 á túninu við félagsheimilið Hvol. Þar verður m.a. sveitarlistamaður Rangárþings eystra útnenfndur og umhverfisverðlaun Rangárþings eystra afhent. Einnig verða skreitingarverðlaun Kjötsúpuhátíðarinnar veitt. Sveppi og Villi skemmta, Leikhópurinn Lotta, Örn Árnason leikari og Hljómsveitin Glóbal, sem er skipuð 15–17 ára ungmennum frá Hvolsvelli, kemur fram. Þá munu Jódís Assa og Elías Páll flytja ljóð en þau sigruðu Stóru upplestrarkeppnina í Hvolsskóla í ár. Lögreglan og Slökkviliðið munu keppa í vatnaknattleik í boði N1. Hljómsveitin Made in sveitin lýkur svo dagskránni á miðbæjartúninu með skemmtilegu krakka- og fjölskyldufjöri. Kl. 20 verður Ljósakvöld í Múlakoti og kl. 21:30 brenna og brekkusöngur í nágrenni við LAVA eldfjallamiðstöðina. Kl. 23:30 hefst svo dansleikur í Hvolnum með hljómsveitinni Made in sveitin.
Á sunnudag kl. 11–16 verður fataskiptamarkaður í Hótel Fljótshlíð. Þar getur fólk komið með föt sem það vill ekki nota lengur og einnig fundið sér falleg föt til að nota.