-4.1 C
Selfoss

Lúpínan fóstrar íslensku flóruna á Haukadalsheiði

Vinsælast

Ýmsar hefðbundnar íslenskar plöntutegundir hafa numið land á Haukadalsheiði síðustu árin í kjölfar uppgræðslu lúpínunnar á svæðinu. Þar spretta nú laukar og gala gaukar sem fyrir fáeinum áratugum var uppblásin auðn og svartur sandur.

Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi, fór fyrir skömmu á Haukadalsheiði ásamt Hreini Óskarssyni, sviðstjóra samhæfingarsviðs Skógræktarinnar í leit að landi til gróðursetningar. Þar á að setja niður 25-30 þúsund birkiplöntur í sumar sem mótvægisaðgerð vegna birkis sem eytt verður vegna framkvæmda við Brúarvirkjun í Haukadal. Verktakar hafa nú þegar hafist handa við gróðursetningu og er gert ráð fyrir að verkinu verði lokið í sumar. Lúpínubreiður eru plægðar og trjáplönturnar gróðursettar í plógförin til að gefa þeim ljós og rúm til að vaxa.

Lúpínan hefur unnið mikið og nytsamlegt verk á Haukadalsheiði. Það uppgræðslustarf hefur verið unnið án útgjalda að slepptu því smáræði sem þurfti í upphafi til að koma henni þangað. Engan tilbúinn áburð hefur þurft til og enga innflutta olíu á vélar og tæki. Nú uppsker íslensk náttúra ríkulega fyrir tilstuðlan lúpínunnar. Ýmislegt er farið að spretta í lúpínubreiðunum á Haukadalsheiði, svo sem grös, súrur og ýmsar blómplöntur. Til dæmis eru brönugrös áberandi í breiðunum og líka blágresi sem er skýrt merki um vaxandi grósku. Með öðrum orðum er ekki að sjá að lúpínan gerist einráð á heiðinni heldur miðlar hún af þeim næringarforða sem hún kemur upp í fátækum sandinum.

Á komandi árum og áratugum vex upp fjölbreytilegt skóglendi á Haukadalsheiði og gera má ráð fyrir því að birkið sái sér þar út í vaxandi mæli. Eins má búast við að fjölbreytni haldi áfram að aukast í lífríkinu, bæði meðal plantna og dýra. Skordýralíf er vaxandi og fuglalíf sömuleiðis. Trausti segir að tegundum eins og skógarþresti, hrossagauk og fleirum fari þar mjög fjölgandi. Ef Íslendingum ber gæfa til að stórauka landgræðslu og skógrækt til að vinna gegn loftslagsbreytingum má búast við að kjörlendi ýmissa fuglategunda muni stækka að mun. Á nýjum landgræðslusvæðum verða til ný búsvæði fyrir berangursfugla eins og lóu og spóa en í nýju skóglendi eiga skógarfuglarnir sín tækifæri til fjölgunar.

Heimild: skogur.is.

Nýjar fréttir