1.7 C
Selfoss
Home Fréttir Að setja sér raunhæf markmið er númer eitt

Að setja sér raunhæf markmið er númer eitt

0
Að setja sér raunhæf markmið er númer eitt
Aníta Rós Aradóttir.

Haustið er tími þar sem fólk horfir í eigin barm og vill fara að koma sér af stað í hreyfingu og form eftir sumarið. Blaðamaður Dagskrárinnar fór á stúfana til að kanna hvernig best væri að snúa sér í þeim efnum.

Aníta Rós Aradóttir er mörgum að góðu kunn. Hún er einkaþjálfari með BS gráðu í íþrótta- og heilsufræðum og starfar hjá World Class á Selfossi. Þá hefur hún keppt í fitness og er Íslands- og bikarmeistari í þeirri grein. Hún heldur einnig úti heimasíðunni fitlif.is ásamt unnusta sínum Elmari Eysteinssyni sem má einnig finna á facebook. Það er því ekki úr vegi að leita á náðir hennar með ráð þegar kemur að því að takast á við að koma sér í rútínu eftir sumarfríið. Eins og gengur slaka margir á yfir sumartímann og missa tökin á hreyfingu og mataræði. Það getur verið heljar mikið átak að drífa sig af stað og þegar af stað er komið að halda sér gangandi. Hjá mörgum er þetta mesti hausverkur.

Aníta lítur svo á að haustið sé tími nýrra markmiða og þó frelsið sé gott yfir sumarið sé rútínan líka góð og mikilvæg fyrir okkur. Að mati Anítu eru flestir á höttunum eftir því sama, að ná tökum á hreyfingu og mataræði. Helstu hindranirnar sem fólk rekst á er óöryggi við að takast á við breytingar. Ýmsar spurningar geta skotið upp kollinum eins og hvernig á ég að byrja, hvernig mataræði er best og hvernig æfingar á ég að gera til að ná mínum markmiðum.

Aníta mælir með að spyrja sig spurninga á móti. Fyrsta spurningin ætti að snúast um „hvaða markmiðum langar mig að ná?“ Næsta skref er að ákvarða hvernig má láta svarið verða að veruleika.

„Það er mikilvægt að taka fram blað og penna og skrifa markmiðin niður. Þau verða að vera raunhæf og mælanleg. Þegar markmiðin eru of stór springur fólk oft fljótt og gefst upp. Því er betra að setja sér langtímamarkmið og brjóta þau niður í smærri einingar. Það er líka mjög mikilvægt að hreyfingin sé af því tagi að þér finnist hún skemmtileg til lengdar. Möguleikarnir eru endalausir, útivist, blak, lyftingar eða jóga eru dæmi um það sem hægt er að gera. Það þarf að finna ástríðuna svolítið,“ segir Anita Rós.

Aðspurð um mikilvægustu atriðin þegar kemur að því að koma sér af stað eftir sumarfríið eða bara almennt segir Aníta; „Að setja sér markmið er númer eitt. Númer tvö er að hreinsa til í mataræðinu og númer þrjú að fara eftir æfingaplani og fylgja því fast. Þannig næst árangurinn og æfingin fer ekki til spillis með spjalli eða bara í eitthvað. Þá er lykilatriði að fylgjast með því sem maður er að gera og skrá niður þyngdir, bætingar eða tíma. Fagmenn geta hjálpað mikið varðandi það að koma sér af stað og hjálpa til við réttu handtökin, mataræðið og fleira. Þarna er betra að vanda valið. Munum svo bara að sýna þolinmæði, við þurfum ekki að sigra heiminn á einum degi. Þá er ekki skynsamlegt að fara of geyst af stað, 2–3 skipti í viku 30–60 mínútur er fínt til að byrja með. Svo er hægt að auka það smátt og smátt eftir þörfum og aukinni getu. Mataræðið er auðvitað mikilvægt, ég myndi segja svona 70–80% af árangrinum. Megrunarkúrar og öfgar eru aldrei málið og virka ekki til lengdar. Reynum að tileinka okkur mataræði og lífstíl sem við getum hugsað okkur að fylgja alla ævi og okkur líður vel af. Borða hreina, holla og fjölbreytta fæðu og takmarka sykur og unna matvöru. Aðalatriði er að hafa gaman að þessu öllu og njóta þess að komast í form, rækta líkama og sál.“