-1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Maður byrjaði ungur í eldhúsinu, aðallega að borða samt

Maður byrjaði ungur í eldhúsinu, aðallega að borða samt

0
Maður byrjaði ungur í eldhúsinu, aðallega að borða samt
Hjalti vígalegur við kolin.

Margir þekkja Hjalta Vignis. Hjalti er þriggja barna faðir með fjórða á leiðinni. Hann ólst upp í Þorlákshöfn og er sonur hjónanna Vignis Arnarsonar og Dagnýjar Magnúsdóttur sem reka kaffihúsið Hendur í höfn.

Hjalti hefur í félagi við Arnar vin sinn, verið að gera myndbands innslög, haldið úti snapchat reikningnum Schnapparinn (grillarinn á pallinum). Saman skipa þeir grilldúettinn Grillfeður og reka saman facebook síðuna Grillsamfélag Íslands sem er með rúma 6.000 fylgjendur. Áhugasömum er bent á að skoða síður þeirra á fésbókinni. Hjalti er forfallinn grillaðdáandi og hefur marga fjöruna sopið í þeim efnum. Blaðamaður leitaði á náðir Hjalta með spennandi pælingar um grill og mat.

Hvar byrjaði áhuginn á grillinu?
Grillið er bara bein afleiðing af ástríðu á matargerð sem ég fékk með móðurmjólkinni. Mamma hefur alla tíð verið þekkt fyrir það að ein sort á borði er ekki nóg og matarboð hennar orðið tilefni í margar sögur. Hún, eins og margir þekkja, endaði svo á að opna veitingstaðinn og kaffihúsið Hendur í Höfn í Þorlákshöfn. Maður byrjaði ungur í eldhúsinu hjá þeim og aðallega mömmu. Ástríðan fyrir matargerðinni hófst þó ekki fyrr en fyrir kannski 6–7 árum síðan, fram að því fannst mér best að borða matinn.

Hvað gerir grillið að spennandi eldunaraðferð?
Að elda mat yfir opnum eldi eru fyrstu kynni forfeðra okkar að elduðum mat, þetta er fyrsta eldunaraðferðin okkar og því er þetta ákveðin leit í upprunann að stunda kolagrillmennskuna af mikilli ástríðu. Það er í raun ekkert sem ekki er hægt að grilla eða elda á grillinu, hvort sem það er hafragrauturinn, kjötsúpa eða bara góð steik, gott grill er ekkert annað en eldavél og helluborð í einum og sama hlutnum.

Gas eða kol er þetta ekki endalaus debatt?
Ég er oft spurður hvaða grill hentar best og hvort það séu kol eða gas sem á að kaupa. Það er ekki til einfalt svar við þessu, ekki frekar en hvort kom á undan eggið eða hænan segir hjalti hlæjandi. Hinsvegar að þá kom kolagrillið vissulega á undan gasinu. Kolagrillið er að koma sterkt til baka þar sem hönnunin á þeim er orðin þannig að þú getur stjórnað hitanum uppá gráðu. Ég mæli alltaf með kolagrilli, ekki spurning, maturinn verður bara betri og það er ákveðin rómantík í því að grilla mat yfir kolum.

Nú er fjöldi hátíða að bresta á um allt land. Það er því ekki úr vegi að fá Hjalta til að negla fram einni uppskrift sem áhugasamir grillara geta prófað upp á tjaldsvæðinu, götugrillinu eða bara í ísköldum bjór á pallinum.

Þessi glæsilega máltíð slær um sig hvar sem hún er reidd fram.

Uppskriftin er fyrir ca. 1 kg. af úrbeinuðum kjúklingalærum, lærin eru mun safaríkari en bringur. Berið fram með grænmeti, heimagerðri hvítlaukssósu og grilluðu naan brauðunum.

Marinering
1 bolli grísk jógúrt
2 msk ólivuolía
3 tsk paprika
½ tsk cumin
1/4 tsk kanill
1 tsk chilliflögur
2 msk nýkreistur sítrónusafi
Börkur af einni sítrónu
1 tsk salt
½ tsk nýmalaður svartur pipar
5 hvítlauksgeirar (pressaðir)

Aðferð
Blandið öllum hráefnum saman í skál, hrærið vel og látið standa í kæli í að lágmarki 12 tíma.

Skerið svo lærin í þrjá bita og þræðið upp á spjót og látið umfram marineringu leka af þeim í ca 10 mínútur.

Kveikið upp í grillinu á svona 180–190 gráður, passið að grindurnar séu vel heitar svo að kjúklingurinn festist ekki við þær. (Hægt að bera olíu á þær til öryggis) og grillið þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Munið að snúa honum á 10 mínútna fresti.

Naan brauð – 14 stykki
Notaði ca. 8 gr. af þurrgeri.
1 bolli volg vatn
1/4–1/5 úr bolla sykur
50–60ml mjólk
1 hrært egg
2 tsk salt
2½ bolli hveiti
Hvítlaukur eins og þu vilt.

Aðferð
Ger og vatn hrært saman.
Þurrefnum blandað saman og gervatn sett saman við. Hnoðið og látið hefast í um klst.
Búið svo til kúlur úr deiginu og látið hefast í 30 mín.
Pressið niður, fletjið út og smellið á grillið. Hvert brauð tekur um 3 mínútur – 90 sek á hvorri hlið.

Eldsnögg hvítlaukssósa
1 bolli grísk jógúrt, 3 geirar af hvítlauk fínt saxaðir, 1 msk sítrónusafi, 2 msk extra virgin ólivuolía salt og pipar eftir smekk Blandið öllu saman og kælið í að lágmarki klst., fyrir notkun.