-8.9 C
Selfoss

Góð þátttaka og tilþrif á starfsíþróttamóti á Hellu

Vinsælast

Héraðsmót HSK í starfsíþróttum fór fram í Grunnskólanum á Hellu laugardaginn 18. ágúst sl. Keppt var í þremur greinum og var þátttaka góð, en mótið var hluti af hátíðardagskrá Töðugjalda sem fram fóru þessa helgi.

Keppt var í fuglagreiningu í opnum flokki þar sem keppendur áttu að greina fugla af myndum. Eftir jafna keppni urðu verðlaunahafar þessir: 1. Eiríkur Vilhelm Sigurðsson Umf. Heklu, 2. Ómar Helgason Umf. Heklu og 3. Sævar Jónsson Umf. Heklu.

Keppendur í stafsetningu. Mynd: HSK.

Í stafsetningu voru níu keppendur sem tóku þátt. Lesinn var texti og keppendur áttu að fylla í eyður. Verðlaunahafar urðu þessir: 1. Sigríður Arndís Þórðardóttir Garpi (2 villur), 2. Kjartan Már Hjálmarsson Umf. Selfoss (4 villur) og 3. Rósa Hlín Óskarsdóttir Umf. Heklu (5 villur).

Flott tilþrif sáust í keppni í kökuskreytingum. Mynd: HSK

Nú var í fyrsta sinn keppt í kökuskreytingum á HSK-móti. Keppnin var fyrir 16 ára og yngri og máttu krakkarnir keppa sem einstaklingar eða saman í liði. Margar stórglæsilegar skreytingar litu dagsins ljós í keppninni sem var hin skemmtilegasta, og var erfitt val hjá dómurunum að velja sigurvegara. En verðlaunahafar urðu þessir: 1. Eyrún Eva Guðjónsdóttir og Sigurður Bergmann Guðjónsson Umf. Selfoss, 2. Andrea Líf Ívarsdóttir og Stella Dís Jóhannesdóttir Umf. Heklu og 3. Ásberg Ævarr Björgvinsson og Þorbjörg Helga Björgvinsdóttir Umf. Heklu.

Í stigakeppni félaga unnu heimamenn í Umf. Heklu afgerandi sigur: 1. Umf Hekla 39 stig, 2. Umf. Selfoss 11 stig, 3. Umf. Garpur 10 stig og 4. Umf. Þjótandi 3 stig.

Starfsíþróttanefnd HSK þakkar öllum keppendum og áhorfendum fyrir komuna og stjórnendum Grunnskólans á Hellu fyrir góða aðstöðu.

Fanney Ólafsdóttir formaður Starfsíþróttanefndar HSK

Nýjar fréttir