-6.1 C
Selfoss

Undirskriftalistarnir afhentir Sveitarfélaginu Árborg

Vinsælast

Undirskriftalistar frá undirskriftasöfnuninni sl. vor varðandi ósk um íbúakosningu um nýja aðal- og deiliskipulagið fyrir miðbæ Selfoss voru afhentir fulltrúa Árborgar í gær föstudaginn 17. ágúst, eins og lög gera ráð fyrir. Þetta kemur fram í tilkynningu sem aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar sendu frá sér í gærkvöldi.

Þar segir enn fremur: „Með undirskriftalistunum fylgdi leiðbeinandi umsögn Persónuverndar varðandi meðhöndlun sveitarstjórnar á slíkum listum. En þess var óskað vegna yfirlýsingar fv. framkvæmdastjóra bæjarins um að birta þessa lista opinberlega. Óskin um slíka leiðbeiningu var send á Persónuvernd 10. maí sl., en svar Persónuverndar barst ekki fyrr en  14. ágúst sl. Í svari Persónuverndar kemur m.a. fram að ekki er heimild í lögum til að birta þessa lista opinberlega, gæta þarf meðalhófs við vinnslu gagnanna og virða einkalífsrétt þeirra sem skráðir eru.“

Undirskriftalistarnir hafa verið í vörslu Þjóðskrár Íslands frá því að hún fékk þá í hendurnar sl. vor og voru þeir sóttir í fyrradag og geymsluboxin innsigluð af lögreglunni á Suðurlandi.

Í tilkynningunni segir jafnframt: „Þá er rétt að minna á það að eftir að Þjóðskrá Íslands hafði lokið úrvinnslu sinni á fjölda undirskrifta sl. vor þá sendi hún tölvupóst með staðfestingu á gildandi undirskrift á undirskriftalistunum sem nálgast má á vefsíðu Þjóðskrár Íslands Ísland.is, “mínar síður”.“

Undir tilkynninguna rita ábyrgðarmenn undirskriftasöfnunarinnar, þau Davíð Kristjánsson, Gísli Ragnar Kristjánsson og Aldís Sigfúsdóttir.

Nýjar fréttir