4.5 C
Selfoss

Gömul hús á ferð um landið

Vinsælast

Byggð þróast og breytist. Hús ganga úr sér og þarfnast viðgerða og breytinga í takt við tímana. Breyttir atvinnuhættir og lífsmáti hafa oft kallað á tilfærslu eða flutninga húsa, tímabundið eða varanlega. Stundum er því haldið fram að það sé einhverskonar sögufölsun í því að flytja eða reisa hús sem staðið hafa í öðrum plássum. En hús vinna sér sess á nýjum stöðum þar sem þau sóma sér vel. Um það eru mýmörg dæmi.

Aðflutt hús á Selfossi                                                                                                                                                       Útibú Landsbankans byrjaði starfsemi í tveimur herbergjum í Tryggvaskála 1918. Landsbankinn eignaðist svo verslunarhús Boga Sigurðssonar í Búðardal. Hinn kunni byggingameistari, Einar Einarsson, fór vestur og reif húsið. Efnið var síðan flutt á mótorbáti austur á Eyrarbakka og upp á Selfoss. Þegar komið var með allt timbrið var búið að steypa grunninn. Einar og hans fólk setti húsið saman og það var tekið í notkun um haustið 1919. Þar, að Austurvegi 21, var bankinn til húsa í 35 ár.                                                                                                     Verslunarhúsið Höfn sem á að endurbyggja í nýju miðbæjarhverfi var upphaflega byggt í Þorlákshöfn, síðan var það flutt á Eyrarbakka og loks að brúarsporði Ölfusárbrúar á Selfossi.                                                    Nefna má einnig húsið Stað sem reist var á Eyrarbakka en flutt á Selfoss, nánar tiltekið að Sigtúni 3 þar sem PWC er til húsa í dag.

Frönsku húsin á Fáskrúðsfirði                                                                                                                                    Á Fáskrúðsfirði hefur Minjavernd í samstarfi við Fjarðabyggð endurgert helstu hús sem Frakkar létu reisa þar á árunum 1985 til 1907. Franski spítalinn, sem fluttur var út á Hafnarnes við sunnanverðan fjörðinn rétt fyrir síðari heimsstyrjöld, hafði verið í eyði um nærri 50 ára skeið þegar hugað var að endurreisn spítalans. Hann var að hruni kominn og ekki margar spýtur úr honum nýtilegar. Hann hefur nú verið endurgerður við Hafnargötu neðan við Læknishúsið, sem Frakkar reistu 1907, og húsin tvö tengd með undirgöngum. Kapella Frakka, sem reist var 1898, hefur verið flutt í Hafnargötuna og endurbyggð við hlið Sjúkraskýlisins, endurgerðs fyrsta húss sem Frakkar reistu á Fáskrúðsfirði 1896. Ennfremur hefur Líkhúsið verið endurgert. Saman standa nú hús Frakkanna á Fáskrúðsfirði eða endurgerðir þeirra í nýju og glæsilegu samhengi með hlutverk sem hæfir okkar tímum. Sumt nýsmíði og annað endurgert frá grunni eða mikið endurnýjað.

Ráðherrabústaðurinn frá Flateyri                                                                                                           Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu 32, var lengi táknmynd Reykjavíkur, en hann stóð upphaflega á Flateyri. Hans Ellefsen sem stóð fyrir mikilli hvalstöð á Flateyri reisti húsið 1892 en seldi Hannesi Hafstein það á 5 krónur um aldamótin. Hannes tók húsið niður og flutti það til Reykjavíkur árið 1910 þar sem það hefur síðan gegnt virðulegu hlutverki.                                                                                                                                   Stórhúsið Túngata 3 á Ísafirði kom frá Hattardalseyri. Aðalhúsið í Glaumbæ í Skagafirði er frá Ási í Hegranesi. Bærinn á Hvammi í Hvammsfirði (1874) kom frá Arnarbæli á Fellsströnd á stríðsárunum. Atlahús í Sandgerði er frá Bolungarvík. Elsta hús Hvammstanga, Sjávarborg, hét áður Möllershús og hafði verið flutt þrisvar. Fyrir nokkrum árum var hús flutt frá Lindargötu í Reykjavík til Stykkishólms. Fischershús, stolt Keflavíkur, var flutt frá Danmörku. Hillebrandshús á Blönduósi sem sumir telja elsta timburhús landsins (etv. 1733) kom frá Skagaströnd. Rauða húsið svokallaða, sem lengi stóð á Akureyri, var upphaflega smiðað í Noregi, flutt á Svalbarðsströnd, svo á Akureyri og loks að Botni í Hrafnagilshreppi. Prentsmiðja Skúla Thoroddsen var byggð á Bessastöðum en síðan flutt til Reykjaíkur. Pakkhúsið á Hofsósi (ca 1771) var flutt frá Danmörku. Þannig mætti lengi telja.

Selfosshús í forgrunni                                                                                                                                                   Sigtún þróunarfélag hefur í viðleitni til þess að skapa heildaryfirbragð miðbæjarhverfis í gömlum og hlýlegum stíl stillt saman horfnum húsum sem staðið hafa víða og enn eru til myndir eða teikningar af. Þau tilheyra öll íslenskri byggingasögu og fá nýtt og verðugt hlutverk. Upphafssaga bygginga á Selfossi er þó í forgrunni með Gamla mjólkurbúið og Sigtún sem flaggskip. Allt er þetta í góðu samræmi við húsflutninga, innflutning á húsum og endurgerð húsa í nýrri og gamalli byggingasögu.                              Mörg hús sem eftirsjá er af hafa orðið eyðileggingu, skilningsleysi eða vanhirslu að bráð. Endurgerð, endurbygging og samstilling í nýju samhengi eru allt þekktar leiðir sem farnar hafa verið víða um land og um allan heim. Markmiðin eru oftast að endurnýja í samræmi við ákveðna heildarsýn til þess að halda í söguleg og fagurfræðileg einkenni gamallar byggðar og sérkenni í byggingarstíl og efnisnotkun. Nýr miðbær á Selfossi er í þeim anda.

Guðjón Arngrímsoon og Leó Árnason.

Nýjar fréttir