-1.1 C
Selfoss

Blómstrandi dagar á bókasafninu

Vinsælast

Að venju verður ýmislegt um að vera á bókasafninu á Blómstrandi dögum. Þjófstartað verður með samverustund sumarlestrarbarna miðvikudaginn 15. ágúst kl. 17. Þá verður skemmtilegur ratleikur, leynigestur, happdrætti o.fl. og allir fá hressingu. Á fimmtudeginum verður starfsfólk á fullu að setja upp stóran bókamarkað, en gera hlé á því kl. 17 til að opna samsýningu nokkurra myndlistarmanna í Hveragerði. Á föstudagsmorguninn kl. 10-12 verður starfsmaður frá Héraðsskjalasafni Árnesinga með myndgreiningarfund í bókasafninu og vonast starfsmenn til að sjá sem flesta til að aðstoða við að þekkja fólk á myndum. Bókamarkaðurinn opnar svo kl. 13 en þar verður að finna notaðar bækur af ýmsu tagi á gjafverði og jafnvel verður hægt að „troða upp“ og fá það launað með bókum. Kl. 15:30 mun síðan Hörður Friðþjófsson gítarsnillingur heimsækja safnið og leika íslensk og erlend lög eins og honum einum er lagið.

Á laugardeginum verður bókasafnið opið kl. 11–17 og á sunnudeginum kl. 13–16 með bókamarkað, myndlistarsýningu og myndir í möppu til greiningar. Frá föstudegi til sunnudags verður hægt að taka þátt í litkrítarleik Listvinafélagsins í Hveragerði, teikna úti á stétt og taka myndir af listaverkunum.

Loks er minnt á bókmenntaviðburð Bókabæjanna austanfjalls í Lystigarðinum á Fossflöt laugardaginn 18. ágúst kl. 11. Pjetur Hafstein Lárusson sér um dagskrána, en þar munu m.a. nokkur skáld úr Hveragerði lesa úr eigin verkum og tekinn verður í notkun nýr ljóðakassi Bókabæjanna.

Nýjar fréttir