3.9 C
Selfoss

Kvenfélag Villingaholtshrepps

Vinsælast

Fyrir rúmum 3 árum flutti ég í Flóahrepp. Ég þekkti fáa í hreppnum en var fljótt spurð hvort ég ætlaði ekki að ganga í kvenfélagið? Ég velti þessu töluvert fyrir mér og ákvað að fara á fund sem gestur og sjá hvort þetta væri eitthvað fyrir mig.   Í Flóahreppi eru 3 kvenfélög sem starfa hver um sig sjálfstætt, það eru kvenfélag Villingaholtshrepps, kvenfélag Gaulverjabæjar og kvenfélag Hraungerðishrepps. Kvenfélögin vinna samt saman að mörgum verkefnum meðal annars 17.júní hátíðarhöldum í hreppnum, Fjöri í Flóa hátíðinni og svo er sameiginlegur basar með handverk annað hvert ár. Þar sem ég bý er Kvenfélag Villingaholtshrepps. Ég fór á fund með ákveðnar hugmyndir um að þetta væri nú ógurlega “kerlingalegt” og ekkert nema bakstur! En annað kom í ljós, vissulega er töluvert um bakstur en félagskonur eru á öllum aldri og margt fleira er gert en bakað. Fjáröflun er með ýmsum hætti og samvera og gleði eru í fyrirrúmi. Fljótt hafði ég myndað fjölmörg ný vinatengsl í nýjum heimkynnum gegnum kvenfélagið.

Kvenfélag Villingaholtshrepps fagnaði 100 ára afmæli þann 27.október 2017. Þá fór hópur félagskvenna til Aberdeen í Skotlandi að fagna þessum tímamótum. Ferðin var í alla staði gleðileg, fjölmargt var skoðað og gert. Við heimsóttum gamlan kastala, fórum á höfnina, löbbuðum og fræddumst um miðbæinn og smökkuðum allskyns góðgæti.

Eitt af því sem ég gleðst mikið yfir í kvenfélagsstörfum mínum er allt það góða málefni sem félagið styður við. Margir hafa í gegnum tíðina notið góðs af ágóðum fjáraflana kvenfélaga og það gleður hjarta mitt að fá að leggja mitt af mörkum í þessu.

Kvenfélagskveðja,

Ósk Unnarsdóttir

Formaður skemmtinefndar kvenfélags Villingaholtshrepps

Nýjar fréttir