-3.6 C
Selfoss

Um framkvæmdir fortíðar og framtíðar í Svf. Árborg

Vinsælast

Framkvæmda- og veitustjórn hefur í umboði bæjarstjórnar umsjón með málefnum sem varða verklegar framkvæmdir og veitustarfssemi.

Áætlanir fortíðar

Hafin er vinna við að endurskoða allar fjárfestingaáætlanir sem gerðar voru á síðasta kjörtímabili þar sem komið hefur í ljós að þær standast ekki skoðun. Þar voru fyrirhugaðar framkvæmdir ýmist of lágt verðlagðar eða verkþættir ekki settir í rétta framkvæmdaröð. Nú þegar hefur komið í ljós að kostnaðar- og tímaáætlun dælustöðvar hitaveitu stóðst ekki og einnig kostnaðaráætlun húss sem D-listi hafði lofað knattspyrnumönnum fyrir kosningar. Þar var ekki einu sinni vitað með vissu hver rekstrarkostnaður byggingarinnar yrði eða hver ætti yfirhöfuð að reka hana og hvernig.

Byggingarnefndin sem aldrei tók til starfa

Á fjórða fundi núverandi stjórnar FRV þurfti stjórnin vegna illrar nauðsynjar að stofna vinnuhóp um sérstakt mál þ.e. kaup Svf. Árborgar á félagsmiðstöð og dagdvöl aldraðra að Austurvegi 51. Nýbyggingin var keypt á fermetraverði sem ekki hefur áður sést á Selfossi og átti að afhendast þann 15. maí s.l.. Vinnuhópurinn fékk það verkefni að framfylgja ákvæðum kaupsamnings, þó venjulega sé það í höndum bygginganefnda um slík kaup eða framkvæmdir að sjá um slíkt. Í þetta sinn var það ekki mögulegt þar sem að sú bygginganefnd sem skipuð var á síðasta kjörtímabili og fyrrverandi formaður stjórnar FRV var í forsvari fyrir tók aldrei til starfa, þrátt fyrir ítrekaðar óskir annarra nefndarmanna þar um. Nú er það s.s. í höndum nýskipaðs vinnuhóps stjórnar FRV fyrir hönd sveitarfélagsins að hnýta þá fjölmörgu lausu enda sem enn eru óhnýttir varðandi kaupin og sigla þessu verkefni farsællega í höfn.

Framkvæmdir framtíðar

Á næstu árum eru fyrirhugaðar margvíslegar framkvæmdir á ýmsum sviðum s.s. skólabyggingar, uppbygging íþróttamannvirkja, veituframkvæmdir ýmiskonar og svo mætti lengi telja. Til eru handbækur og leiðbeiningar um það hvernig standa skal að útboðsmálum fyrir slíkar framkvæmdir, sem hollt væri fyrir fyrrverandi formann FRV að lesa sér til gagns. Í Handbók um opinber innkaup eru t.d. leiðbeiningar um það hvaða útboðsaðferðir henta fyrir framkvæmdir líkt og leikskólann við Álfheima og útistofur við Vallaskóla. Húsnæðismál leik- og grunnskóla í sveitarfélaginu eru einmitt í forgangi hjá núverandi meirihluta og þó tíminn sé knappur til framkvæmda vegna örrar íbúafjölgunnar er mikilvægt að gæði bygginga og útboðsaðferðir séu skv. lögum og reglum til að tryggja hag sveitarfélagsins og þar með íbúanna allra.

Góður undirbúningur borgar sig

Huga þarf vel að undirbúningi og áætlanagerð fyrirhugaðra framkvæmda í Árborg, því mikill kostnaður getur fallið til hjá sveitarfélaginu ef þeim þáttum er ábótavant. Hafin er vinna hjá FRV við að leysa fráveitumál sveitarfélagsins til framtíðar. Meirihluti stjórnar FRV skilur að uppsetning veðurstöðvar á Selfossi og rekstur í samstarfi við Veðurstofu Íslands til að afla staðbundinna veðurfarsupplýsinga eru einn liður í því að ná fram fram sem hagkvæmastri hönnun á þeim mannvirkjum sem byggð verða. Aðrir geta yljað sér við þá tilhugsun að ein hliðaráhrif veðurstöðvarinnar er sú skemmtilega staðreynd að nú hyllir undir það að Selfoss sé að komast á veðurkortið. Að óska eftir því að Veðurstofa Íslands kosti uppsetningu og rekstur slíkrar stöðvar, eins og fulltrúar D-lista ætlast til, er líkt og að ætlast til þess að nágranninn sem aðstoðaði mann við að koma upp þriggjafasa tengli fyrir loftpressu í bílskúrnum hjá sér, greiði rafmagnsreikninginn.

Nýjir tímar eru upprunnir í Svf. Árborg hvar vandað verður vel til alls undirbúnings og áætlanagerðar fyrir framkvæmdir framtíðar.

Tómas Ellert Tómasson bæjarfulltrúi M-lista í Árborg

og formaður Framkvæmda- og veitustjórnar.

Nýjar fréttir