-1.6 C
Selfoss
Home Fréttir Lyftistöng fyrir okkur

Lyftistöng fyrir okkur

0
Lyftistöng fyrir okkur
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson.

Sælir kæru Selfyssingar og aðrir íbúar sveitarfélagsins Árborgar.

Sigurbjörn Daði Dagbjartsson heiti ég og er tiltölulega nýfluttur á Selfoss en ég er fæddur og uppalinn í Grindavík. Mín fyrrverandi kona er héðan og flutti hingað með tvær dætur okkar þegar við skildum árið 2014. Þegar elsta dóttur mín frá fyrra sambandi flutti hingað líka í fyrra ásamt barnsföður sínum og afabarni mínu þá varð deginum ljósara hvar mér væri best borgið. Ég flutti hingað í byrjun nóvembermánuðar og líst einfaldlega afskaplega vel á mig hér.

Áður en ég flutti frétti ég útundan mér um fyrirhugaðan miðbæ Selfoss og varð strax ansi spenntur yfir þessum pælingum. Hef síðan þá kynnt mér málið nokkuð vel og er orðinn ennþá spenntari! Í mínum huga er deginum ljósara að þessi nýi miðbær mun verða gífurleg lyftistöng fyrir Selfoss og Árborg og mun gott mannlíf verða margfalt betra.

Selfoss og Grindavík

Segja má að Selfoss glími að vissu leyti við sambærilegt vandamál og Grindavík en innan Grindavíkur er vinsælasti ferðamannastaður landsins, Bláa lónið. Áætlað er að um 90-95% ferðamanna sem koma til landsins fari í Bláa lónið, það er dágóður fjöldi…. Ég efast um að bærinn Grindavík fái 1% af þeim ferðamönnum sem fara í lónið. Meginþorri þessara ferðalanga veit örugglega ekki að hinum megin við fjallið Þorbjörn er rótgróinn og flottur sjávarútvegsbær. Að sjálfsögðu koma margfalt fleiri ferðamenn og dvelja hér á Selfossi en í Grindavík en samt er öruggt að langstærstur hluti ferðamanna sem einfaldlega þurfa að fara í gegnum Selfoss á leið sinni á vit íslenskra ævintýra, nánast staldrar ekkert við og brunar bara í gegn. Út af hverju? Því það vantar tilfinnanlega aðdráttarafl.

Þær tekjur sem þessi gífurlegi fjöldi ferðamanna myndi skilja eftir sig hleypur á hundruðum milljóna á hverju einasta ári. Sveitarfélagið Árborg mun einnig fá dágóðan hluta í formi þeirra fasteignagjalda sem byggingarnar munu bera og talið er að 200-300 ný störf verði til út frá miðbænum. Það útsvar skilar sér beint í kassa Árborgar, þ.e. ef starfsfólkið býr innan Árborgar.

Ekki má gleyma allri þjónustu sem mun spretta upp út frá þessum fyrirætlunum og skilst mér að þekkt fyrirtæki eins og 66°, Cintamani o.fl. hyggist opna verslanir í miðbænum og það segir kannski allt sem segja þarf um tækifærið sem hér er fyrir aðra þjónustu og kjörið færi til að stofna fyrirtæki fyrir þá aðila sem það vilja. Aðal atriðið hér að öll þjónusta mun batna til muna og er það ekki af hinu góða fyrir bæjarbúa?

Aukin þjónusta

Gleymum ekki innspýtingunni sem þessi miðbær mun verða í menningarflóruna okkar en með auknum fjölda ferðamanna þarf að vera mikil og góð þjónusta á sviði matar, drykkjar og skemmtunar, fyrir utan öll þau söfn og sýningar sem geta notið sín til hins ýtrasta. Ég sé t.d. í hyllingum litla tónleikastaðinn, sem er inni í pælingunum en tilfinnanlega vantar 100-150 manna tónleikastað sem mun geta og mun þurfa að bjóða upp á alls kyns lifandi tónlistarviðburði flest kvöld vegna þess fjölda ferðamanna sem hér munu dvelja. Þarna gefst ungum og upprennandi Selfyssingum tækifæri á að troða upp. Ég þekki nokkra Akureyringa og fólk sem hefur dvalið í lengri og skemmra tíma á Akureyri og tala þau mikið um Græna hattinn og hversu gífurlega mikið sá litli og æðislegi tónleikastaður gerir fyrir Akureyri, okkar tónleikastaður er í þeim anda. Það hefur komið mér á óvart að í eins stórum bæ og Selfoss er, að ekki sé gamaldags og flottur bar en það mun verða að veruleika með tilkomu þessa nýja miðbæjar. Fyrir áhugafólk um enska boltann t.d., þá á víst að hanna og búa til alvöru íþróttabar þar sem hægt verður að njóta leiksins yfir veitingum. Í mínum huga sem Selfyssingi er þetta allt saman einfaldlega bara mjööööög spennandi!

Gullið tækifæri

Ég í einfeldni minni get bara á engan hátt komið auga á hvernig hægt er að vera á móti þessu. Jú, ef einhverjum finnst svona gömul hús ekki falleg þá má alveg virða þá skoðun en ef þetta mun laða að ferðamenn sem vilja dvelja hér lengur en þær 3 mínútur sem tekur að keyra í gegnum bæinn, má þá ekki sætta sig við lítið hverfi sem er ekki fallegt að mati viðkomandi?

Ég neita að trúa að Selfyssingar og aðrir íbúar sveitafélagsins Árborgar ætli að láta þetta gullna tækifæri renna sér úr greipum.   Eins og Bjarni Fel orðaði það forðum, „það er næsta víst“ að þetta mun verða gífurleg lyftistöng fyrir okkur og sveitarfélagið og ekkert nema gott á að geta hlotist af þessu.

„Miðbæjar-kveðja“, Sigurbjörn Daði Dagbjartsson