-3.6 C
Selfoss

Bækur geta dregið mig í næturlangt ferðalag

Vinsælast

Einar Bergmundur hefur búið á Suðurlandi síðan 2007 bæði á Selfossi og í Hveragerði en býr núna við rætur Ingólfsfjalls í Alviðru. Hann er fæddur vestur á Ísafirði en alinn upp að talsverðu leyti í Reykjavík. Stundaði nám við MS en fór í ljósmyndun til Svíþjóðar og vann um tíma við kvikmyndagerð. Síðustu áratugi hefur hann starfað sem forritari og hugbúnaðarhönnuður og hefur meðal annars unnið að vefnum Náttúran.is ásamt konu sinni Guðrúnu Tryggvadóttur myndlistarmanni.

 

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Ég náði mér í Origin eftir Dan Brown í bókaveitunni Scribid og er aðeins að lesa í henni til að hvíla hugann frá öðrum viðfangsefnum. Orðinn þreyttur á hasarnum í sjónvarpsþáttum sem ég horfi reyndar lítið á. Svo er ég með prentaðar bækur á náttborðinu, Stefnumót við alheiminn eftir Sigvalda Hjálmarsson, Þjónn verður leiðtogi eftir Robert K. Greenleaf í þýðingu Róberts Jack og Ljóð Inkans eftir Tupac – konung Inka í þýðingu sem Úlfur Ragnarsson gerði úr dönsku, sem ég gríp í eftir atvikum.
Hvers konar bækur höfða til þín?
Það er allur gangur á því, ég reyni í seinni tíð að velja mér eitthvað uppbyggilegt. Búinn að lesa nóg um hörmungar og hrakfarir. Svo les ég töluvert af fræðilegum texta um upplýsingatækni, stjórnun og forritun starfa minna vegna. Og til að flækja tilveruna þá laumaðist ég með annan fótinn í trúarbragðafræði við HÍ og því fylgir nú allnokkur lestur s.s. samtímasaga guðspjallanna ásamt kenningum og útleggingum. Einnig um önnur trúarbrögð en kristni og sálfræði, Freud og Jung. Sumt meira að segja á hebrezku. Það heldur heilanum virkum að takast á við nýjungar. Ekki má gleyma músíklitteratúrnum, óperum og ljóðasöngvum, þar liggur fjársjóður sem almennt er kannski ekki tengdur við lestur en er vel þess virði.
Varstu alinn upp við bóklestur?
Ég var alinn upp við lestur og góðar bækur, las mikið sem barn og unglingur. Las grísku leikritin og kviðurnar sem táningur, sumt á ensku og það sem fékkst á íslensku. Bob Moran, Tom Swift og Enit Blyton bækurnar að sjálfsögðu sem krakki. Marga árganga af Anders And & Co á dönsku. Stundum heyrði ég útundan mér að mæður áttu tal saman og höfðu áhyggjur af því að við krakkarnir værum bara „alltaf á kafi í bókum“. Nú eru það tölvurnar. En það er með þær eins og bækur; viðfangsefnið getur verið gott eða slæmt, það er ekki miðillinn sem ákvarðar það.
Hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?
Þær eru misjafnar eftir aðstæðum. Þegar mikið liggur við vegna starfa og náms verður lestrarhesturinn latur við afþreyingu og fagurbókmenntir utan ramma viðfangsefnanna.
Þá gríp ég stundum í hljóðbækur til að hvíla augun og athyglina. Gott að líða bara um með söguþræðinum án þess að þurfa að standa skil á öllum upplýsingum. Ég er kannski meiri lestarjálkur en lestrarhestur í seinni tíð en las áður fyrr allt sem fyrir augu bar. Starf mitt sem tölvunarfræðingur krefst stöðugrar uppfærslu á sífelldum nýjungum á þeim vettvangi og þess vegna get ég notið hvíldar í fornum ritum sem breytast hægt en þó fylgja þeim nýjar túlkanir og rannsóknir sem opna endalausan heim vangaveltna og hugmynda.

 

Einhver uppáhaldshöfundur?
Nei enginn sérstakur. Margir hafa margt gott fram að færa hver á sínu sviði. Þó eru það helst þeir sem hafa séð í gegnum mannskepnuna og getað skrifað mögnuð verk um breyskleika okkar og tilfinninganna. Þar koma gömlu grikkirnir sterkt inn, Halldór Laxness, Jakobína Sigurðardóttir, Svava Jakobs og Jökull, Thor, Gyrðir, Hallgrímur og Sjón. Ibsen, Strindberg og Rússarnir Chekhov og Tolstoy. Og ekki síst vísindaskáldsagnahöfundurinn Douglas Adams.
Hefur bók rænt þig svefni?
Vil nú ekki segja að þær fjölmörgu bækur sem hafi haldið mér vakandi til síðustu síðu hafi rænt mig svefni. Frekar að þær hafi dregið mig á næturlangt ferðalag. Sem vissulega hefur á stundum skilað mér þreyttum í dagsins önn, en sáttum og ögn ríkari af reynslu annara.
Hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Það er ekki gott að segja, stundum hefur mig langað að hnoða saman skáldsögu. Gerði reyndar uppköst að nokkrum leikritum og kvikmyndum hér á yngri árum sem ekkert varð úr. Gæti samt hugsað mér að taka það upp aftur ef aðstæður leyfa. Svo hefur mér stundum dottið í hug að fikra mig að fræðilegum texta og fikt mitt við trúrabragðafræði er líklega rótarangi á því sviði. Nenni varla að skrifa um forritun og slíka tækni því úrelding er svo hröð á þeim vettvangi, nema þá út frá mannlegum þáttum, viðmóti, sálfræði og sammannlegum skilningi. En hver veit?

Nýjar fréttir