Laugardaginn 21. júlí s.l. var haldið upp á fimm ára afmæli Fischersetursins á Selfossi. Athöfnin hófst í Laugardælakirkju með minningarathöfn um skákmeistarann Bobby Fischer. Athöfnin var í umsjá séra Kristins Ágústs Friðfinnssonar fv. sóknarprests Selfosskirkju. Ræðumaður var Davíð Oddsson fv. forsætisráðherran. Hann rifjaði upp atriði frá uppeldisárum sínum hjá afa sínum Lúðvíki Norðdal lækni á Selfossi. Þá lýsti Davíð sinni aðkomu að því að reyna að fá bandarísk stjórnvöld til að sýna Bobby Fischer mildi þó hann hefði teflt í Júgóslavíu 1992 og þá þvert á bann bandaríkjamanna. Á þessum tíma geisaði borgarastyrjöld í Júgóslavíu og vegna þess voru vesturlandaþjóðirnar með viðskiptabann á Jógóslavíu. Davíð nefndi í ræðu sinni að eftir þetta hafi Bobby Fischer verið eftirlýstur af Bandaríkjastjórn og eftir viðbrögð hans við árásunum á tvíburaturnana í New York hefði verið sérstaklega erfitt að eiga við bandarísk stjórnvöld. Davíð sagði einnig frá sínum þætti í því að frelsa Fischer frá Japan með því að hann fengi íslenskt vegabréf. Alþingi Íslendinga samþykkti 21. mars 2005 íslenskan ríkisborgararétt fyrir Bobby Fischer og tveimur dögum síðar lenti hann á Reykjavíkurflugvelli. Davíð telur að það hefði ekki síst verið að þakka öflugum baráttuhópi vina Fischer að það tókst að leiða þetta mál í heila höfn.
Þá söng Dagný Halla Björnsdóttir nokkur lög. Að athöfn lokinni var boðið upp á kaffi í Fischersetri. Þar héldu Guðmundur G. Þórarinsson framkvæmdastjóri einvígisins 1972, Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra, Guðbjörg Jónsdóttir og Guðni Ágústsson fv. landbúnaðarráðherra ávörp.