4.5 C
Selfoss
Home Fréttir Garðsláttur og ofbeit

Garðsláttur og ofbeit

0
Garðsláttur og ofbeit

Ofbeit er það kallað þegar gengið er of nærri gróðurlendi og því sem landið getur framleitt. Með réttum aðferðum, getur gróðurlendið náð sér eftir að þannig fer í fyrsta skipti. Langvarandi og endurtekin tímabil ofbeitar valda yfirleitt sáðskiptum á svæðinu.

Sáðskipti er það kallað þegar ríkjandi eða mest áberandi tegundir á tilteknu svæði, víkja fyrir öðrum. Sú tegund sem best þolir aðstæðurnar, – bæði fjölgar sér og vex best.

Þetta gerist gjarnan í heimilisgarðinum. Einhverjum árum eftir þökulagningu lóða, getur það hent að allt aðrar tegundir eru ríkjandi en voru fyrsta árið.

Þetta er eðli náttúrunnar! Þegar einhver tegund býr við slakan kost eða illa meðferð, er síður von til að hún fjölgi sér. Oftar en ekki, fækkar einstaklingum af þeirri tegund.

Skýringarmynd af grassverði.

Grasstráið sjálft vex með allt öðrum hætti en t.d. tré. Tréð vex í toppinn en ekki neðan frá eins og grasstráið. Vaxtarstaður grassins er því ofaní grasrótinni.

Margir segjast þurfa að slá sjaldnar, ef þeir stilla sláttuvélina neðarlega! – Jú, eðli málsins samkvæmt, þá vex sú planta minna sem er samviskusamlega sködduð eða “slegin niður” með jöfnu millibili allt sumarið!

Með því að slá nálægt vaxtarstað grassins, sköðum við og merjum vaxtarbrumið og veikjum samkeppnishæfnina, svo sem eins og við mosann.

Sé það einlægur ásetningur garðeigandans að sáðskipti verði og einhver grastegund sem þolir ofbeit betur, verði í meirihluta, þá gæti gagnast að stilla garðsláttuvélina eins neðarlega og hún hefur afl til.

En fyrir þann sem hvorki vill hafa mosa í grasflötinni né slá oft, þá er vandinn flóknari en svo að hægt sé að leysa á þessum vetvangi.

Áferðarfallegasta grastegundin fyrir heimilisgarðinn þrífst ekki vel við þann kost sem margir búa henni. Þá er það sem hætta á sáðskiptum verður meiri og aðrar tegundir verða meira áberandi en sú grastegund sem flestir garðeigendur vilja.

Til að viðhalda ríkjandi grastegund í grasflötinni, þarf að láta af því að skaða vaxtarsprota grassins með því að slá of neðarlega!

Góð byrjun væri að hækka sláttuvélina um eitt gat áður en slegið er næst.

Sáðskipti í grasflöt taka meira en 1-2 ár.

Mosi mun tæplega minnka í grassverðinum strax sama ár og sláttuhæðinni er breytt, en klárlega á næsta sumri.