-3.6 C
Selfoss

Fjölskylduhátíðin Flúðir um versló hefst á morgun

Vinsælast

Annað kvöld hefst hátíðin Flúðir um versló með stórtónleikum KK-bands í Félagsheimilinu á Flúðum. Hátíðin er nú haldin í fjórða skiptið og hefur dagskráin aldrei verið glæsilegri en dagskráin er sett fram með það að markmiði að öll fjölskyldan geti verið saman alla verslunarmannahelgina.

Auk KK-bands koma Páll Óskar, Stebbi Hilmars, Á móti sól, 200.000 naglbítar, Stuðlabandið og Sóli Hólm fram í Félagsheimilinu á kvölddagskrá hátíðarinnar.

Barna- og fjölskyldudagskrá verður á laugardag þar sem Sveppi og Villi skemmta fólki. Einnig verður boðið upp á skemmtilegan markað. Kókómjólk frá MS, Íþróttanammi frá Sölufélagi Garðyrkjubænda, glaðninga frá Íslenska gámafélaginu, safar frá Ölgerðinni og annað skemmtilegt gefins á meðan birgðir endast.

Þá verða loftboltar, hoppukastalar, teygjutrampolín, hringekjur, matartorg og margt fleira í gangi alla helgina.

Klukkan 15:00 á laugardeginum fer svo fram hin geysivinsæla Traktoratorfæra í Torfdal. Viðburður á heimsmælikvarða þar sem glaðir drengir úr sveitinni keppa um hver sullar mest á gömlum dráttarvélum.

Og ekki má gleyma Furðubátakeppninni sem hefur verið haldin á Flúðum nánast frá landnámi. Hún fer fram á sunnudeginum klukkan 15:00.

Ekki verður boðið uppá sérstakt ungmenna tjaldsvæði þetta árið og vonast aðstandendur til að fjölskyldan komi saman og skemmti sér í fallegu umhverfi.

Nýjar fréttir