1.7 C
Selfoss
Home Fréttir Fullveldið og hlíðin fríða

Fullveldið og hlíðin fríða

0
Fullveldið og hlíðin fríða

Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands, flytur fyrirlesturinn: Vinagleði – Félagsleg þýðing bókmennta í þjóðernislegu samhengi að Kvoslæk í Fljótshlíð laugardaginn 28. nk. kl. 15:00. Að loknum fyrirlestrinum eru kaffiveitingar.

Sveinn Yngvi segir um efni fyrirlestursins:

„Ættjarðarljóð eru ekki aðeins ort til að vera lesin í einrúmi heldur líka flutt eða sungin á mannamótum. Þeim er ætlað að sameina þjóðina og mynda hópkennd eða samstöðu. Í ættjarðarljóðum er iðulega vísað í sögu og samtíð en eitt helsta einkenni þeirra er þó landlýsing af einhverju tagi. Oft er heimalandinu þá lýst á fremur upphafinn og almennan hátt, þar sem landkostir og náttúrufar birtast frekar í samnöfnum en sérnöfnum eða örnefnum. Ættjarðarljóð hafa því almenna tilhöfðun fremur en staðbundna. Þau tengjast gjarnan vinagleði (e. conviviality) og eru að því leyti eins konar forskrift að eða hylling á félagsskap og því að gleðjast á góðri stund. En þau geta einnig falið í sér gagnrýni, t.d. í garð herraþjóðar á nýlendutímum eða gagnvart óþjóðlegri hegðun. Í fyrirlestrinum verður fjallað um slíka vinagleði og hlutverk hennar í þjóðernislegu samhengi. Meðal verka sem koma við sögu eru Vinagleði Magnúsar Stephensens, Borðsálmur og Vísur Íslendinga eftir Jónas Hallgrímsson og fleiri kvæði af því tagi eftir íslensk skáld og erlend, m.a. skoska skáldið Robert Burns.“