1.1 C
Selfoss

Flúðir um versló haldin í fjórða skipti um verslunarmannahelgina

Vinsælast

Fjölskyldu- og bæjarhátíðin „Flúðir um versló“ verður haldin á Flúðum um komandi verslunarmannahelgi. Þetta er í fjórða skiptið sem hátíðin er haldin. Dagskráin er stórglæsileg og metnaðarfull þar sem haldið er í hefðir fyrri ára með nokkrum viðbótum. Hátíðin er orðin fastur liður í hátíðarhaldi hjá mörgum þessa miklu gleðihelgi og undanfarin ár hafa gestir verið á frá 10.000 til 14.000.

Flúðir taka vel á móti öllum gestum og er aðstaða á tjaldsvæðinu til fyrirmyndar, enda er um eitt af stærri tjaldsvæðum landsins að ræða. Þar að auki hefur svæðið verið stækkað frá því í fyrra og rafmagnstenglum á svæðinu einnig verið fjölgað. Hægt er að fara inn á heimasíðuna www.tjaldmidstod.is til að fá frekari upplýsingar varðandi tjaldsvæðið.

Íþróttaálfurinn mætti á „Flúðir um versló“ á síðasta ári.

Þetta árið verður ekki í boði sérstakt ungmennatjaldsvæði. Aðal ástæðan fyrir þessari breytingu er sú að svæðið sem hefur verið notað sem unglingasvæði undanfarin ár hefur verið skipulagt til framkvæmda og verða framkvæmdir væntanlega hafnar um verslunarmannahelgina. Eingöngu verður í boði að vera á aðal-tjaldsvæðinu og þar er og mun verða 23 ára aldurstakmark. Skipuleggjendur hátíðarinnar leggja til að ungmenni yngri en 23 ára komi í fylgd fjölskyldna sinna og allir njóti saman.

Öflugt eftirlit verður á öllu Flúðasvæðinu frá upphafi vikunnar, í aðdraganda helgarinnar, til að koma í veg fyrir að gestir tjaldi eða komi sér fyrir þar sem það er óheimilit. Þetta gæti komið við einhverja og er bent á tjaldsvæði í nágrenni Flúða og að gestir geri ráðstafanir varðandi þessa breytingu.

Eftirlit á svæðinu verður í höndum Björgunarfélagsins Eyvinds, lögreglu, gæsluaðila, sjálfboðaliða og fleiri aðilum frá mánaðarmótum júlí/ágúst og fram yfir helgi. Hart verður tekið á ofbeldismálum, fíkniefnamálum og öðru sem skipuleggjendur vilja ekki sjá á svona glæsilegri hátíð.

Allar upplýsingar má sjá á Facebook „Flúðir um Versló·. Efni mun einnig verða birt á Snapchat reikningnum „fludirumverslo”.

Hátíðin er haldin af Sonus viðburðum ehf. í samstarfi við Hrunamannahrepp, Tjaldmiðstöðina á Flúðum og Ölgerðina Egil Skallagrímsson auk fjölda fyrirtækja og einkaaðila.

 

Nýjar fréttir