2.3 C
Selfoss

Nýsköpun í Grafningnum

Vinsælast

Bændur á Stóra-Hálsi láta ekki sitt eftir liggja í frumkvöðlastarfi og opnuðu nýjan og skemmtilegan dýragarð nú í vor sem ber nafnið Sveitagarðurinn. Hugmyndin kviknaði hjá ábúendum upp úr hátíðinni Borg í sveit. Undanfarin ár hafa þau haft einn dag á hátíðinni þar sem fólk hefur getað komið og skoðað dýrin á bænum. Fjárhúsið var opnað fyrir gesti og gangandi til að skoða. Þeim fannst spennandi tilhugsun að gera meira úr hugmyndinni og opna dýragarð sem væri opinn alla daga. Sigrún Jónsdóttir bóndi á bænum sagði þetta góða viðbót við sauðfjárbúskapinn sem fyrir er á Stóra-Hálsi. Þau eru með um 300 kindur á bænum.

Í vor átti að hefja framkvæmdir til þess að allt væri tímanlega komið upp. Eins og flestir vita voraði seint og blaut tún, rigningar og fleira settu strik í reikninginn. Með krafti og áræðni tókst samt að koma verkefninu á koppinn og áður en opnunardagurinn rann upp var allt klárt og tilbúið.

Þann 2. júní var fyrsti opnunardagur Sveitagarðsins. Opnunin var sömu helgi og hátíðin Borg í sveit var haldin. Síðan þá hafa um 2000 manns komið að kíkja á dýrin og njóta afþreyingarinnar sem í boði er á svæðinu. Til dæmis eru þar hestar sem hægt er að setjast á, leiktæki fyrir börn og bekkir þar sem hvíla má lúin bein. Fjöldi dýra er á staðnum eins og hestar, kettlingar, geitur, þrjár tegundir af hænum, sauðfé og fleiri húsdýr. Einnig má finna dýr sem flokkast ekki sem hefðbundin húsdýr eins og hrafn, stórir arnpáfagaukar, skrautdúfur af ýmsum toga og yrðlingar. Hægt er að fara inn til sumra dýranna og komast í mikið návígi við þau og klappa þeim jafnvel.

Arnpáfagaukarnir voru sannarlega til í spjall við ljósmyndarann. Mynd: GPP.

Hugmyndin með stofnun garðsins er að færa sveitina nær fólki, en Sveitagarðurinn dregur nafn sitt af því að það er margt að gera í sveitinni. Framtíðarplönin gera ráð fyrir að bjóða upp á allskyns sveitatengda afþreyingu fyrir börn og fullorðna með innsýn í hefðbundin störf bóndans. Öðru fremur er alltaf gaman í sveitinni og meðal þess sem er á döfinni er að reisa risastórann hoppukastala. Kastalinn verður um 160 fermetrar og mun ná í 8 m hæð. Þegar blaðamann bar að garði var einmitt verið að koma kastalanum fyrir í flutningaskipi sem siglir með hann til landsins. Sigrún Jóna Jónsdóttir framkvæmdastjóri garðsins segir vonir standa til þess að kastalinn verði kominn upp fyrir Verslunarmannahelgina.

Ljóst er að mikill hugur er í ábúendum á Stóra-Hálsi og spennandi verður að fylgjast með uppbyggingunni hjá þeim

 

Nýjar fréttir