3.9 C
Selfoss

Íbúakosning um miðbæjarskipulag Selfoss

Vinsælast

Áfram Árborg, Framsókn og óháðir, Miðflokkurinn og Samfylkingin stofnuðu til meirihlutasamstarfs í bæjarstjórn Sveitarfélagins Árborgar að afloknum sveitarstjórnarkosningunum þann 26. maí sl. Meginstef málefnasamnings framboðanna er lýðræðisleg og gagnsæ stjórnsýsla.

Seinagangur og ósk um baksamninga
Í mars 2015 samþykkti Bæjarráð Árborgar vilyrði til sex mánaða fyrir úthlutun 16.000 m2 svæðis í miðbæ Selfoss til handa Sigtúns þróunarfélags ehf., sem skuldbatt sig til þess að sjá um og kosta gerð deiliskipulags fyrir svæðið í heild sinni og leggja fyrir sveitarfélagið til umfjöllunar og afgreiðslu. Eftir nær þriggja ára undirbúning, vinnslu og umfjöllun var deiliskipulag miðbæjar á Selfossi síðan samþykkt í bæjarstjórn þann 21. febrúar 2018. Fjöldi athugasemda bárust vegna deiliskipulagsins og þeirrar aðalskipulagsbreytingar sem nauðsynleg var til að deiliskipulagið gæti öðlast gildi. Í framhaldinu óskaði svo þriðjungur íbúa sveitarfélagsins, eftir því að fá að kjósa um hvort skipulag miðbæjarins á Selfossi byggðri á hugmyndum Sigtúns þróunarfélags ehf., öðlaðist lögformlegt gildi. D-listi Sjálfstæðisflokksins lagði þá nauðbeygður fram þá tillögu fyrir 46. fund bæjarstjórnar þann 14. maí sl. að fá Þjóðskrá Íslands til að undirbúa rafræna íbúakosningu fyrir sveitarfélagið.

Á bæjarráðsfundi þann 5. júlí sl. óskar svo minnihluti D-lista Sjálfstæðisflokksins óvænt eftir því að gerður yrði baksamningur við Sigtún þróunarfélag ehf., sem yrði auglýstur í B-deild stjórnartíðinda með deiliskipulagstillögunni og þar með skuldbinda sveitarfélagið fyrirfram áður en íbúar fengju að segja sitt álit á skipulaginu. Því var að sjálfsögðu hafnað þar sem að gildistaka samnings sveitarfélagsins og Sigtúns þróunarfélags, sem samþykktur var af fimm fulltrúum D-listans þann 13. júlí 2017, öðlast ekki gildi fyrr en skipulagsferlinu er lokið og skipulagið hefur endanlega öðlast gildi.

Meirihluti bæjarstjórnar vill flýta því að fá niðurstöðu
Nú liggur fyrir að Þjóðskrá Íslands nær ekki að undirbúa og vinna fyrir sveitarfélagið gögn nægjanlega fljótt svo unnt sé að láta kosninguna fara fram með rafrænum hætti eins og áður hafði verið ákveðið í bæjarstjórn.

Á grundvelli málefnasamnings meirihluta bæjarstjórnar, X. kafla sveitarstjórnarlaga nr.138/2011 um samráð við íbúa og til þess að tryggja að íbúar sveitarfélagsins fái að segja sína skoðun á miðbæjarskipulagi Sigtúns þróunarfélags ehf., hefur meirihluti Á-, B-, M- og S-lista því ákveðið að kosningin verði með hefðbundnu fyrirkomulagi í kjördeildum þann 18. ágúst nk. til að fá lýðræðislega niðurstöðu í málið sem allra fyrst. Með því að kjósa þennan dag, gefst rúmur tími til að auglýsa og kynna íbúakosninguna eins og lög gera ráð fyrir. Þá næst einnig að uppfylla tímaramma um auglýsingu í B-deild stjórnartíðinda verði skipulagið samþykkt í íbúakosningunni.

Í höndum íbúa að velja
Nú er það í höndum íbúa sveitarfélagsins að ákveða hvort að unnið verði áfram með hugmyndir Sigtúns þróunarfélags ehf. eða að uppbygging svæðisins verði með öðrum hætti. Hvort þetta tiltekna deiliskipulag verður samþykkt í íbúakosninguni eða ekki, mun núverandi meirihluti leggja sig fram um að uppbygging á miðbæjarreit Selfoss fari í gang sem allra fyrst.

Málið hefur að okkar dómi verið allt of lengi í undirbúningi og á vinnslustigi. Einnig virðist það hafa klofið íbúa sveitarfélagsins í tvær fylkingar með eða á móti skipulaginu. Það er því von okkar að með því að fá lýðræðislega niðurstöðu með íbúakosningu þann 18. ágúst nk. náist sátt um framhald eða lok málsins.

Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista
Helgi Sigurðurður Haraldsson, B-lista
Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista
Tómas Ellert Tómasson, M-lista

Nýjar fréttir